140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

auðlegðarskattur, eignarnám og skattlagning.

483. mál
[16:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns vil ég svara henni með þessum hætti: Hugtakið eignarnám er að finna í 72. gr. stjórnarskrár Íslands. Þar er fjallað um friðhelgi eignarréttarins og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og skuli koma fullar bætur fyrir. Ekki er kveðið á um tiltekin mörk í viðkomandi ákvæði, hvorki í fjárhæðum né öðrum mælikvörðum. Því er vandséð hvernig kanna eigi þau mörk sem hv. þingmaður spyr um enda um eðlisólíka hluti að ræða. Annars vegar er spurt um eignarskattlagningu og hins vegar skyldu eiganda eignar til að láta hana af hendi að öllu leyti eða hluta gegn eignarnámsbótum sem annaðhvort fara eftir samkomulagi eða mati.

Stjórnvöld hafa orðið að skera niður útgjöld á öllum sviðum. Einnig hefur orðið að grípa til tekjuöflunaraðgerða af margvíslegum toga til að komast í gegnum erfiða tíma. Mat stjórnvalda var einfaldlega það að greiðendur auðlegðarskatts væru aflögufærari um að leggja meira til samfélagsins en þeir sem minna eiga. Því verður ekki á móti mælt að skýr jákvæð tengsl séu á milli tekna og hreinnar eignar og hátt frítekjumark er fyrir einstaklinga vegna skattsins.

Spurningu nr. 2 svara ég með þessum hætti: Hér er greinilega gengið út frá því að sú eign sem skattlögð er gefi engar tekjur af sér. Allt eins má líta á að skatthlutfallið sé álag á fjármagnstekjur. Þessi röksemdafærsla á engan rétt á sér nema um sé að ræða eignir sem ekki gefa af sér neinar tekjur.

Svarið við spurningu nr. 3, ég er að spara mér tíma með að lesa hana ekki upp, er svona: Í árslok 2010, en það er síðasta árið sem upplýsingar eru til um bæði fjármagnseignir og fjármagnstekjur, áttu heimilin í landinu innlán í innlánsstofnunum að upphæð 563,6 milljarða kr. ef undan eru skilin innlán í séreignarlífeyrisreikningum hjá þessum sömu stofnunum. Af þeim voru 126 milljarðar, þ.e. 22%, á verðtryggðum reikningum. Það sama ár töldust vaxtatekjur heimilanna á skattframtölum 28,7 milljarðar. Vísitala neysluverðs hækkaði um 2,5% yfir árið 2010 og samkvæmt því hefðu verðbætur yfir árið numið 3,1 milljarði kr. miðað við að innstæður hafi verið hinar sömu í upphafi og við lok ársins. Þær drógust hins vegar saman og því er talan eitthvað hærri.

Á gjaldeyrisreikningum í eigu heimilanna voru 23,5 milljarðar kr. um áramótin 2010, en gengi krónunnar hafði hækkað töluvert yfir árið og því er engin tekjufærsla vegna þeirra. Á heildina litið voru því rúmlega 3 milljarðar af 28,6 milljarða vaxtatekjum heimilanna vegna verðbóta á verðtryggðum innlánsreikningum, þ.e. 10,5%. Af þessum tölum verður þó ekki fullyrt að sama hlutfall af fjármagnstekjuskatti sé tilkomið vegna verðtryggingarinnar, enda greiddu einungis 46.800 aðilar fjármagnstekjuskatt samtals en 171.800 aðilar höfðu vaxtatekjur af innstæðum.

Varðandi spurningu 4 frá hv. þingmanni vil ég svara henni þannig að ég get alls ekki tekið undir það sem hv. þingmaður kýs að nefna álagningu afturvirkra skatta. Meginreglan um tímapunkt skattskyldu vaxtatekna hjá einstaklingum utan atvinnurekstrar er að vextir hafi verið greiddir eða greiðslukræfir á tekjuárinu, sbr. 1. málslið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Ávöxtun langtímaskuldabréfa telst almennt óvissar tekjur sem ekki eru skattskyldar fyrr en við innlausn, sbr. og 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga.

Hv. þingmaður spyr að lokum hvort ég hyggist brjóta stjórnarskrána sem bæði hann og ég höfum svarið eið að. Ákvæði hennar um tímasetningu lagasetningar um skattamál eru alveg skýr. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Þær lagabreytingar sem ég stend fyrir munu hér eftir sem hingað til taka mið af þessu.

Þau svör sem ég hef gefið við spurningum hv. þingmanns sýna að svo hefur verið í því erfiða verkefni sem baráttan við afleiðingar efnahagshrunsins hefur staðið.