140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

flugvildarpunktar.

519. mál
[16:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þessa fyrirspurn. Flugvildarpunktar eru ósiðlegir, það er mjög einfalt. Þeir skekkja samkeppni. Einu sinni var íslenskt flugfélag sem vildi fljúga ódýrt út á landsbyggðina og bauð mun lægri fargjöld en ekki vildarpunkta. Opinberir starfsmenn sem fóru til Reykjavíkur til að hitta fjárlaganefnd og aðra opinbera aðila völdu alltaf dýrari miðann af því að þá fengu þeir prívat vildarpunkta sem sveitarfélagið borgaði ef þetta voru sveitarfélagsmenn.

Þetta er ósiðlegt kerfi, það skekkir samkeppni og það er ríkið eða fyrirtækið sem greiðir þetta en starfsmaðurinn fær punktana.

Svo fannst mér hæstv. fjármálaráðherra skauta fram hjá því að svara fyrir það hvort því sé framfylgt að þetta sé skattskylt. Það er ekki nóg að lesa bara einhverjar reglur um að það sé eða sé ekki skattskylt. Svo eykur þetta að sjálfsögðu launamun (Forseti hringir.) karla og kvenna vegna þess að aðallega karlmenn fá þetta.