140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

flugvildarpunktar.

519. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með svör hæstv. fjármálaráðherra og taka undir með síðasta ræðumanni í öllu sem hann sagði. Fyrsti punkturinn er auðvitað sá að það er furðulegt og í raun og veru fordæmalítið að fjármálaráðherra svari undirbúinni fyrirspurn þannig að það sé óljóst hvort tiltekið fyrirbrigði sé skattskylt eða ekki. (Gripið fram í.) Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að leggja í skoðun á því hvort þetta er svo eða ekki. Það verður að vera á hreinu hvort hlunnindi af þessu tagi eða fríðindi eru skattskyld eða ekki, það er fáheyrt að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki getað svarað þessu. Ég bið hann að tala betur við embættismenn sína og setja í gang þá vinnu sem þarf til að finna út úr þessu.

Hins vegar er ekki fáheyrt, því að það er margheyrt af öðrum fyrirspurnum hér á þinginu til fjármálaráðherra, að þeir treysta sér ekki til að gefa upp eða finna út magn þessara punkta. Það kom líka fram í svari við þeirri fyrirspurn sem ég minntist á áðan frá 2003–2004. Það virðist líka vera siður embættismanna þeirra sem fengnir eru til að gera uppköst að svörum fyrir fjármálaráðherra að neita nánast tilvist þessara flugvildarpunkta sem allir vita um og allir (Gripið fram í.) þekkja í samningum við flugfélögin. En það er þannig, forseti, að flugfélag hér á landi, Iceland Express hygg ég það heiti á ensku, hefur boðið ríkinu, að mér skilst, samning án þessara punkta þar sem afsláttarkjör koma á móti. Það er alveg fáheyrt ef það er þannig að Ríkiskaup hafa ekki gert ráð fyrir því að (Forseti hringir.) ekki væru bónusar eða hlunnindi innifalin vegna þess að hver maður á Íslandi veit hvernig stendur með þessa punkta. (Forseti hringir.)

Forseti. Ég lýsi vonbrigðum mínum með þetta svar og vonast til að nýtt komi á næstunni. Ef ekki, þá flytjum við hv. þm. Pétur Blöndal væntanlega þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) eða frumvarp um þetta mál.