140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

tengsl undirbúnings umsóknar um aðild að Evrópusambandinu og friðunar svartfugls.

585. mál
[16:49]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er tvíhliða mál sem hér er verið að fjalla um, annars vegar spurning sem varðar beinlínis tengsl aðgerða umhverfisráðuneytisins við aðildarumsókn Íslands að ESB og hins vegar fræðilegur og faglegur grunnur þeirra aðgerða sem verið er að leggja til. Hvort tveggja er svolítið undir í spurningum hv. þingmanns.

Umræðan um fækkun svartfuglastofna er ekki bundin við Ísland. Hún hefur verið uppi töluvert undanfarin missiri og ekki bara á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og í Bretlandi. Í málstofu umhverfisráðuneytisins og Náttúrufræðistofnunar í mars á síðasta ári var dregin upp mjög skýr mynd af mikilli fækkun í þessum stofnum. Sumir mundu vilja kalla það hrun. Í kjölfar þessa stofnaði ég starfshóp í ljósi hinnar alvarlegu stöðu í þeim tilgangi að fjalla meðal annars um veiðar og nýtingu svartfugls og til að nefndin gæti gert tillögur til mín um aðgerðir sem stuðlað gætu að endurreisn þessara stofna hér við land.

Þess má geta í ljósi spurninga fyrirspyrjanda að það liggur fyrir að í kjölfar aðildarumsóknar Íslands fól umhverfisráðuneytið bæði Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands meðal annars að greina fuglatilskipunina eins og þingmaðurinn vísar til, þ.e. hvað hún felur í sér gagnvart íslenskri löggjöf rétt eins og gildir um alla aðra löggjöf á Íslandi og er hluti af þessu umsóknarferli. Það má segja að frá því í júní 2010, þegar niðurstöður þeirrar rýningar liggja raunverulega fyrir, hafi umhverfisráðuneytið og stofnanir þess haft ítarlegar upplýsingar um það í hvaða atriðum þessi lög væru ekki að fullu í samræmi við fuglatilskipun ESB. Þessar upplýsingar hafa verið aðgengilegar öllum á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Varðandi aðrar spurningar hv. þingmanns er því til að svara að rannsóknir hafa hvorki verið gerðar hér á áhrifum hefðbundinnar hlunnindanýtingar á svarfuglastofnana né hvort þau áhrif séu í sjálfu sér afgerandi fyrir afkomu þeirra. Á það er hins vegar bent í skýrslu starfshópsins að ástæða hrunsins sé talin ætisskortur en ekki veiðar. Jafnframt er bent á að við þessar aðstæður sé mikilvægt að friða stofnana fyrir öllum veiðum til að stuðla að endurreisn þeirra.

Því miður er skýrslugjöf í veiðikortakerfinu ekki nægjanlega nákvæm til að hægt sé að segja til um það hversu margir svartfuglar séu veiddir af handhöfum hlunnindakorta. Við höfum ekki nægilega skýrar reglur um skil. Í tillögum starfshópsins eru tillögur um að bæta upplýsingagjöf um skil á veiðiskýrslum. Vonandi getum við komið því til framkvæmda.

Landeigendur sem fara með veiðirétt á sínu landi og hafa staðfestan rétt til nýtingar hefðbundinna hlunninda hafa ekki svo vitað sé umgengist svartfugl þannig að hætta sé af þeirri umgengni. Það hefur þó komið í ljós að um fjórðungshluti lundaveiði í afla sem tekinn er sem hlunnindaveiði er fullorðinn fugl. Það er sérstakt áhyggjuefni. Nýting hlunninda á varptíma hefur miðast við að veiðin byggðist á ókynþroska fugli og því er umhugsunarvert hvort forsendur fyrir lundaveiði yfir sumartímann séu brostnar og að hætta geti stafað af slíkum veiðum fyrir styrkingu og endurnýjun í lundastofninum.

Hvað varðar þátt refa og minka sem hv. þingmaður nefndi í spurningum sínum í viðgangi svartfuglastofna er eyðing refa og minka á forræði sveitarfélaga og þeim veiðum á að beina á svæði þar sem hætta er á tjóni af völdum þessara tegunda samkvæmt lögunum. Þegar talað er um tjón er í flestum tilfellum verið að vísa til búfénaðar, eins og sauðfjár og svo auðvitað nýtingar æðardúns og fiskveiða. Það er löngu vitað að minkur getur haft áhrif á fuglalíf, einkum á varp teistu og lunda á eyjum, en refur getur líka haft áhrif í fuglabjörgum ef þau eru aðgengileg fyrir refinn. Það hefur hins vegar verið talið að afrán refs á svartfugli sé takmarkað og að áhrif hans á viðgang svartfuglastofna séu lítil, ef nokkur.

Ég vona, virðulegur forseti, að ég geti svarað því sem út af stendur í mínu seinna svari. Þess má þó geta að í samningsafstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu er gengið út frá því að veiðistjórn hvað þessar tegundir varðar sé í höndum íslenskra stjórnvalda eins og lagt er upp með í áliti utanríkismálanefndar Alþingis. Samningsmarkmið Íslands er því að heimilt verði að veiða og nýta þessar fimm tegundir áfram hér á landi. Ákvörðun um hvort leyfa skuli veiðar hér á landi verður þá í höndum íslenskra stjórnvalda og sú ákvörðun mun byggjast á því hvort stofninn (Forseti hringir.) þoli veiðar eða ekki. Það er grundvallaratriði.