140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

tengsl undirbúnings umsóknar um aðild að Evrópusambandinu og friðunar svartfugls.

585. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru samt þannig að maður þarf að fara betur yfir þau og gæti þurft að fylgja þeim betur eftir þar sem hún svaraði ekki spurningunum sem lagðar voru fram. Hvað sem því líður er það að minnsta kosti gott að svarið við sjöttu spurningunni sem er: „Hefur ráðherra upplýsingar um að eigendur hlunninda umgangist þessa auðlind þannig að hætta stafi af?“ er afdráttarlaust: Nei.

Það kemur líka fram að ætisskortur er vandinn hjá svartfuglinum en ekki veiðar. Flestir eiga erfitt með að skilja hvers vegna þá er verið að banna veiðar. Ef það er lítið æti gerist ekkert annað en að fuglinn mun svelta. Ég er búinn að fá upplýsingar víðs vegar að út af þessu. Núna áðan fullyrti við mig einn að norðan sem þekkir vel til að það hefði aldrei verið betra ástand á Norðurlandi varðandi svartfuglinn. En við höfum ekki tíma til að ræða það hér.

Ég get ekki séð annað en að þessi starfshópur hafi meðal annars verið stofnaður til að gera tillögur um lagabreytingar í tengslum við umsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Ég vek athygli á því að núna stýrum við þessu en við erum að semja við Evrópusambandið um að fá að stýra þessu áfram. Það er grundvallarbreyting ef hlunnindanýtingin verður ekki heimil, það er ekki inni í tilskipuninni núna. Við höfum ekkert að gera með það að Evrópusambandið breyti tilskipuninni einhliða. Við munum ekki koma að því nema að litlu leyti ef við förum þarna inn sem ég vona að verði aldrei.

Virðulegi forseti. Það er stórmál ef gerðar verða grundvallarbreytingar á því sem við höfum séð. Ég held að það megi færa full rök fyrir því að við Íslendingar höfum umgengist náttúruna af virðingu og gætum frekar kennt öðrum en að láta einhverja aðila sem ekkert þekkja til og búa við allt aðrar aðstæður segja okkur hvað við eigum að gera.