140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skipulag haf- og strandsvæða.

618. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram á Alþingi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um skipulag haf- og strandsvæða. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

Hvað líður undirbúningi að skipulagi á haf- og strandsvæðum við landið og hver er staða verkefnisins? Hefur verið tekin afstaða til þess hver eigi að fara með skipulagsvaldið, ríki eða sveitarfélög?

Tilefni þess að ég legg fram þessa fyrirspurn er að það eru auðvitað komin upp ný viðhorf varðandi skipulag á haf- og strandsvæðum. Hér fyrr meir var þetta tiltölulega einfalt. Menn reru til fiskjar og þá gilti um það sérstök löggjöf sem menn urðu að fara eftir. Síðar meir var það þannig að nýting hafsvæðanna breyttist mjög mikið. Bæði eru fiskveiðar framkvæmdar með margvíslegri hætti en oft var áður og síðan hefur orðið til alls konar haftengd starfsemi eða starfsemi sem tengist sjávarútvegi en er þó ferðatengdari á margan hátt. Þar á ég við hluti eins og sjóstangveiði, skemmtisiglingar og hvalaskoðun eftir atvikum. Ýmislegt fleira mætti nefna í þessu sambandi.

Við vitum líka að það hefur orðið gríðarlega mikil uppbygging í ferðamennsku víða um landið og ferðamenn nýta sér einmitt tækifærið og möguleikana sem snúa að því að fara ferðir um hafsvæðin, bæði í lengri og styttri siglingar. Komum skemmtiferðaskipa hefur fjölgað mjög mikið. Ég sá áðan að á fjórða tug skipa kemur til dæmis til Ísafjarðar á þessu sumri og gert er ráð fyrir að um 30 þús. farþegar komi með þessum skipum.

Við vitum líka að starfsemi hafna hefur breyst. Það hefur orðið uppbygging á ákveðnum svæðum, t.d. í Arnarfirði, við efnisnám af hafsbotni. Þar er ég að vísa til kalkþörungavinnslunnar sem skiptir orðið mjög miklu máli í atvinnulífinu á sunnanverðum Vestfjörðum. Við höfum velt fyrir okkur hvers konar nýrri orkuvinnslu. Þetta vekur líka spurningar um nýtingu og nýtingarrétt sjávarjarða og eigenda þeirra. Þannig gætum við áfram talið.

Þetta gerir að verkum að það þarf að taka til sérstakrar skoðunar ýmsa þætti sem lúta að skipulagi á haf- og strandsvæðum við landið. Fjórðungssamband Vestfirðinga, sérstaklega framkvæmdastjóri þess, Aðalsteinn Óskarsson, hefur haft mjög mikið frumkvæði í þessum efnum og unnið að mínu mati algjört brautryðjendaverk.

Nú er verið að yfirfara þessi mál á vegum hæstv. umhverfisráðherra. Því ákvað ég að leggja fram þessa fyrirspurn vegna þess að það er ástæða til að reyna eftir föngum að hraða þessari vinnu og um leið velta fyrir sér hvar skipulagsvaldið eigi að liggja. Á það að liggja hjá ríkinu eða sveitarfélögum og hvernig á að öðru leyti að standa að þessum málum?