140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skipulag haf- og strandsvæða.

618. mál
[17:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir mjög áhugaverða fyrirspurn og eins svör hæstv. ráðherra. Þegar við á þinginu fjölluðum um lög um kræklingarækt sem eiginlega enduðu þannig að það mætti halda að það væru lög um bann við kræklingarækt og eins núna þegar atvinnuveganefnd hefur verið að skoða fiskeldismál virðist sem það sé algjör forsenda fyrir því að menn geti skipulagt starfsemi sem er misjöfn, það getur líka verið ferðaþjónusta, það getur verið svo margt annað sem tengist strandsvæðunum, að það liggi þar fyrir skipulag áður en menn fara af stað, en ekki þessi frumskógur af umsögnum og inngripum ríkisstofnana eins og við erum að byggja upp í dag.

Ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðherra og bið hana að koma aðeins inn á það ef hún getur í sínu seinna svari að ég hefði talið eðlilegra að þessi skipulagsvinna yrði sett yfir til (Forseti hringir.) landshlutanna sem sífellt er verið að færa meiri verkefni, yrði að frumkvæði ríkisins (Forseti hringir.) en tekið tillit til þeirrar landsskipulagsstefnu sem ríkið eðlilega setur þar.