140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skipulag haf- og strandsvæða.

618. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir fróðlegt svar og hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að taka þátt í umræðunni.

Ég fagna því líka sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að nú sé í undirbúningi frumvarp sem taki sérstaklega á því álitamáli sem ég gerði að umtalsefni. Hér er um að ræða mjög brýnt mál. Við vitum líka að það getur verið býsna viðkvæmt. Nú háttar þannig til að á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga er verið að vinna eins konar haf- og strandsvæðaprufuskipulag í Arnarfirði, nýtingaráætlun sem menn eru að reyna að setja niður fyrir sér. Við skulum aðeins fara eftir minni yfir álitamálin sem geta komið upp.

Arnarfjörður er stór og mikill fjörður með straumakerfi sínu. Hann hefur hins vegar nokkra sérstöðu eins og við vitum sem þekkjum þar til. Þar fara fram hefðbundnar fiskveiðar, með ýmsum veiðarfærum, svo sem snurvoð, línu og færum. Þar fer fram rækjuveiði og núna er að hefjast þar viðurhlutamikið laxeldi. Þar hafa komið upp árekstrar eins og við þekkjum, því miður. Þarna hafa menn líka reynt fyrir sér með kræklingarækt. Þarna eru siglingar með farþega. Þarna er líka umfangsmikil kalkþörungavinnsla af hafsbotni eins og ég nefndi áðan. Það þarf að taka þessi mál alveg sérstökum tökum.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að forræði sveitarfélaga og heimamanna sé sem mest í þessum efnum. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Ég vil þess vegna nefna hér í þessari umræðu að ég tel eðlilegt að þegar verið er að vinna svona frumkvöðulsstarf eins og núna er verið að vinna í Arnarfirði á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga beri ríkinu að leggja því lið, t.d. með fjármagni. Núna liggur fyrir að það vantar rúmlega 2 millj. kr. til að sveitarfélögin á Vestfjörðum geti lokað (Forseti hringir.) þessu dæmi.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ráðherra sé ekki sammála mér um að það sé eðlilegt vegna eðli málsins að ríkissjóður komi þar til skjalanna, a.m.k. að einhverju leyti.