140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni að við tökum til 3. umr. frumvarp um heildstæða löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn sem hefur verið í vinnslu nokkuð lengi því að þetta er í þriðja sinn sem frumvarp þessa efnis er nú lagt fyrir Alþingi. Aldrei hefur það náð svona langt.

Hér er lögð til ein heildstæð rammalöggjöf í stað 14 sérlaga um allar 33 stéttir heilbrigðisstarfsmanna í landinu og er til samræmis við það sem gerist í næstu nágrannalöndum. Það hefur verið mikil og góð samstaða í nefndinni við vinnslu þessa máls. Eftir 2. umr. fjölluðum við aftur um málið í nefndinni, m.a. vegna breytingartillagna sem hér eru á dagskrá við 3. umr.

Ég vísa til nefndarálits á þskj. 1090 þar sem kemur fram að til fundar við nefndina hafi komið fulltrúar frá velferðarráðuneyti og embætti landlæknis. Það var vegna brjóstapúðamálsins svonefnda, en nefndin fjallaði ansi mikið um hagsmunatengsl heilbrigðisstarfsmanna og ábyrgð þeirra í ljósi brjóstapúðamálsins. Niðurstaða varð sú að fjalla ekki frekar um það í tengslum við þetta mál heldur flytur meiri hluti nefndarinnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu sem er að finna á þskj. 1093, mál 679. Því ætla ég ekki að fjölyrða meira um þetta við þessa umræðu.

Frú forseti. Vegna tillögu í lið 2 á þskj. 1092 frá Eygló Harðardóttur þar sem gert er ráð fyrir því að landlæknir skuli halda skrá yfir hagsmunatengsl heilbrigðisstarfsmanna vísast til umsagnar í nefndaráliti fyrir 2. umr. frá 1. minni hluta og er ítrekað hér í þessu nefndaráliti eftir 2. umr. um að málið þurfi frekari skoðunar við. Það þarf að skoða það heildstætt og með hliðsjón af því að um 33 heilbrigðisstéttir er að ræða.

Engu að síður ítrekum við eftir þessa umfjöllun milli umræðna að velferðarráðuneytið skoði ítarlega setningu reglna sem miði að því að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra eða að minnsta kosti upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra til að sjúklingar geti tekið afstöðu til slíkra upplýsinga.

Hvað varðar tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um framlengingu á starfsleyfi í 3. tölulið á þskj. 1092 er þar vísað til þess að í 26. gr. frumvarpsins er lagt til að heilbrigðisstarfsmanni verði ekki heimilt að reka eigin starfsstofu eftir 70 ára aldur, en sæki viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður um það er landlækni þó heimilt að framlengja leyfið til tveggja ára í senn en þó aldrei oftar en tvisvar. Það er rétt að það gætir misræmis að því er varðar eina stétt heilbrigðisstarfsmanna, Lyfjastofnun er samkvæmt 22. gr. lyfjalaga heimilt að framlengja leyfi leyfishafa lyfsöluleyfis um eitt ár í senn og er þá ótakmarkaður fjöldi skipta.

Í áliti 1. minni hluta við 2. umr. kom fram að ekki væri ástæða til að breyta lyfjalögum nú hvað þetta varðar, enda er endurskoðun þeirra væntanleg. Við í meiri hlutanum í hv. velferðarnefnd teljum þó brýnt að árétta að hin nýja rammalöggjöf sem við erum hér að fjalla um tekur til allra heilbrigðisstarfsmanna og allra heilbrigðisstarfsstétta og hún gengur þannig framar hinum eldri lyfjalögum að þessu leyti þó að um sérlög sé að ræða. Þannig eigi 26. gr. frumvarpsins einnig við um lyfsala og leyfishafa lyfsöluleyfis. Eftir samþykkt laga um heilbrigðisstarfsmenn verður því eingöngu heimilt að framlengja lyfsöluleyfið þrisvar sinnum til tveggja ára í senn eftir 70 ára aldur leyfishafa, alveg eins og gildir um allar aðrar heilbrigðisstéttir.

Ég vil taka fram vegna umræðu sem hefur orðið um þetta ákvæði að ekki er verið að tala um að menn megi ekki stunda sitt fag eða sína vinnu, aðeins að menn megi ekki reka eigin starfsstöð.

Frú forseti. Ég vil að lokum víkja að breytingartillögu frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur sem er að finna á þskj. 1091. Þar er lagt til að tekið verði að nýju inn í 13. gr. frumvarpsins að læknir beri ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu, meðferð sjúklinga o.s.frv. eins og þar segir. Þessu var breytt við 2. umr. á þann veg að sérákvæði um lækna var fellt brott enda beri allir heilbrigðisstarfsmenn ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga sem til þeirra leita samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Með því er á engan hátt dregið úr lagalegri og faglegri ábyrgð lækna né óvissa sköpuð um þeirra ábyrgð.

Þetta ætla ég að láta nægja. Undir nefndarálitið sem ég hef hér kynnt rita hv. þingmenn, auk þeirrar sem hér stendur, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús H. Norðdahl, Skúli Helgason og Guðmundur Steingrímsson. Eygló Harðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.