140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins vegna þess að ég minntist ekki á eina af tillögum hv. þm. Eyglóar Harðardóttur sem hún gerði að umræðuefni hér síðast hvað varðar tímabundið starfsleyfi, en í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um tímabundið starfsleyfi sem heimilt sé að veita þeim sem hafi lokið fjórða árs námi í læknisfræði til að sinna tilgreindum læknisstörfum. Ég vil ítreka að meiri hlutinn í nefndinni telur að ákjósanlegt hefði verið að fella niður með öllu ákvæði um tímabundin starfsleyfi en um leið viðurkennum við að aðstæður eru víða með þeim hætti að það getur verið nauðsynlegt að hafa þær inni og það á þó einkum við um lækna. Í ljósi þessa er það mat meiri hlutans að það sé mikilvægt að tímabundin starfsleyfi til þeirra sem ekki hafa lokið tilskildu námi séu einungis gefin út í undantekningartilvikum og þegar brýna nauðsyn ber til vegna þess að ekki sé völ á heilbrigðisstarfsmanni sem hefur lokið námi sínu að fullu.

Hvað varðar lyfjafræðingana er ljóst að heildarendurskoðun lyfjalaga er væntanleg og því er mikilvægt að við þá endurskoðun verði þetta skoðað og þá þau atriði sem hv. þingmaður nefndi, vandræði í kjördæmi hennar með að manna lyfjafræðingastöður.

Ég vil ítreka að þessi lagabálkur tekur til 33 heilbrigðisstétta. Í honum er aðeins gerð þessi eina undantekning hvað varðar tímabundið starfsleyfi til nema í læknisfræði. Það helgast að sjálfsögðu af hefð og reynslu sem á það fyrirkomulag er komin, og er talið að það hafi gefist vel. Ég ítreka að það er mikilvægt að þetta verði skoðað við heildarendurskoðun lyfjalaga en meiri hluti nefndarinnar telur ekki rétt að fjölga þeim stéttum sem fái tímabundið starfsleyfi.