140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið svona langt og ætla ekki að sverja það af mér, því að ég talaði fyrir því máli sem frumvarpið byggir á árið 2008 og síðan hefur það verið í þinginu og fengið vandaða umfjöllun. Ég vona að það hafi batnað og vil trúa því að það hafi batnað í meðförum þingsins og er mjög sammála þeirri hugsun að hafa lagabálka um heilbrigðisstarfsmenn í einum lögum í stað þess að hafa þá í mörgum sérlögum. Í rauninni er ekkert sem mælir með því að hafa fjölda sérlaga um heilbrigðisstarfsmenn að mínu áliti, því að það sem snýr að sérstöðu heilbrigðisstarfsmanna er eðli málsins samkvæmt hægt að taka fyrir í lagabálki eins og þessum.

Hins vegar eru nokkrir hlutir sem ég vildi nota tækifærið og ræða sérstaklega við þessa umræðu. Fyrst vildi ég nefna, af því að ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum meðvituð um það að þegar kemur að aldursmörkum eins og hér hafa verið rædd, að við höfum í huga að við erum alltaf að vinna út frá aldursmörkum sem eru fullkomlega úrelt. 67 ára aldurinn sem við erum að vísa til kom til fyrst á tíð kanslara Þýskalands sem var ekki uppi á síðustu öld heldur þarsíðustu öld, Bismarcks. Sama á náttúrlega við með 70 ára aldurinn, það er eitthvað sem við höfum kannski miðað við alla síðustu öld en á þeirri öld urðu mjög miklar breytingar hvað varðar meðalaldur fólks. Bara frá árinu 1996 hefur meðalaldur bæði karla og kvenna á Íslandi hækkað um þrjú ár. Það eru auðvitað mun meiri líkur á því að eftir því sem fólk verður eldra og er komið á þennan aldur sé það ekki heilsuhraust og geti ekki sinnt þeim störfum sem það sinnti áður en það er alls ekki algilt, langt í frá, og þeim fjölgar alltaf sem geta unnið lengri starfsævi. Það er bara mjög misjafnt hvort fólk vill það, mjög margir fá mikla hamingju út úr því að sinna sínu starfi, ekki síst á því sviði þegar um er að ræða lækna og heilbrigðisstarfsmenn.

Hér er gert ráð fyrir því að viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður geti sótt um leyfi til landlæknis eftir 70 ára aldur til að starfa áfram, og verði þá með sér starfsstofu, en þó ekki oftar en þrisvar þannig að viðkomandi getur verið með starfsstofu til 76 ára aldurs. Ef ég skil málið rétt er viðkomandi einstaklingi heimilt að starfa áfram en ekki með sérstaka starfsstofu og þarf þá að vinna hjá öðrum. Það er alla vega mjög gott að viðkomandi hafi tækifæri til að starfa áfram. Mér skilst að þetta hafi hljómað svona í frumvarpinu sem ég talaði fyrir á sínum tíma og þó svo að menn geti alveg skipt um skoðun ætla ég ekki að gera stóran ágreining um þetta núna. Það gæti verið að einhver kæmi hér upp og læsi upprunalega frumvarpið og þá yrði kannski fátt um svör annað en að það er svo sem eðlilegt að skipta endrum og eins um skoðun ef eitthvað nýtt kemur upp.

Ég vil í mestu vinsemd, virðulegi forseti, hvetja hv. þingmenn til að hugsa málið gaumgæfilega áður en þeir hafna breytingartillögu frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur. Hv. þm. Eygló Harðardóttir minntist hér á að rökin frá nágrannalöndunum bentu til þess að ekki væri ástæða til að halda þessu. Ég held að við getum alveg fullyrt, og til dæmis þetta blessaða brjóstapúðamál, sem hefur hvað mest verið rætt hér, sýnir það svart á hvítu, að eftirliti með heilbrigðisþjónustu á Íslandi er mjög ábótavant. Því er mjög ábótavant. Ég hef ekki kannað það en mér kæmi á óvart ef við værum ekki eftirbátar vinaþjóða okkar á Norðurlöndunum hvað þetta varðar, því miður. Ég þekki það úr mínu fyrra starfi að þetta er nokkuð sem maður áttaði sig á, kannski nokkru seinna en maður hefði viljað, og var með ýmsar fyrirætlanir og undirbúning til að breyta því og mér hefur ekki fundist tíminn hafa verið nýttur nægilega til að taka á þessum málum. Til dæmis þegar landlæknisembættið og Lýðheilsustöð voru sameinuð lögðum við sjálfstæðismenn til að það yrði gert með öðrum hætti og þá með sérstaka áherslu á að efla eftirlitsþáttinn. Við erum í þeirri stöðu, virðulegi forseti, að við erum ekki með sambærilegar tölur um fjölda aðgerða, biðlista o.s.frv. eftir heilbrigðisstofnunum, svo ég taki bara eitt dæmi. Það er fullkomlega óásættanlegt þannig að þegar menn eru að bera saman tölur á milli stofnana eru þær ekki sambærilegar.

Við skulum ekki gleyma því að sá læknir sem mest hefur verið í umræðunni varðandi brjóstapúðana fór til landlæknisembættisins og spurðist fyrir um púðana, hvað hann ætti að gera í þessu. Það hefur verið lítil umræða um það að það var ekkert gert með það af hálfu eftirlitsaðilans annað en að skilaboðin frá eftirlitsaðilanum voru að það borgaði sig ekki að rugga bátnum eða búa til einhverja hræðslu í tengslum við þetta. Þetta var opinbera eftirlitið, virðulegi forseti.

Ég veit ekki til þess og ekkert bendir til þess að það hafi orðið einhverjar stórkostlegar breytingar frá því að þessi mál komu upp. Ég tel þess vegna að við ættum frekar að stíga varlega til jarðar hvað þetta varðar. Í breytingartillögu frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur stendur, með leyfi forseta:

„Í stað 1. málsl. 3. mgr. 13. gr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Læknir ber ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita eða hann hefur umsjón með. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn bera, eftir því sem við á, ábyrgð á greiningu og meðferð sjúklinga sem til þeirra leita.“

Ég held að allir séu sammála um að það skipti máli að þetta sé mjög skýrt. Þess vegna er best að hafa þetta mjög skýrt í lögunum, ef við sjáum að við erum að komast á þann stað sem ég vona að við komumst að koma á betra eftirliti með heilbrigðisþjónustu. Mér hefur fundist umræðan einkennast fremur af því að verið sé að hnýta í einkarekna heilbrigðisþjónustu í tengslum við brjóstapúðamálið í stað þess að taka heildstætt á þessum málum og það kann ekki góðri lukku að stýra. Ég skil ekki af hverju menn eru að setja núna orku í það sem er sjálfsagt, að skoða réttindi og stöðu sjúklinga, og það sé eingöngu gert vegna einkarekinnar þjónustu. Það er mér fullkomlega óskiljanlegt. Það er að vísu einn þriðji af heilbrigðisþjónustunni en af hverju er það bara tekið út? Af hverju er ekki öll heilbrigðisþjónustan tekin út úr því að verið er að fara í þá vinnu? Það er eitthvað rangt við að nálgast málið með þeim hætti.

Það getur hins vegar enginn haldið því fram að við séum komin á þann stað sem ég ætla öllum að við viljum með eftirlitið. Við sameiningar hefur ekki verið lögð nægjanleg áhersla á þann þáttinn, og þá er ég að vísa í sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar en þar var mjög gott tækifæri til þess einmitt að leggja línuna og undirbúa þá stofnun sem ætti að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustunni og hún mundi sinna því hlutverki sem við viljum að hún sinni, virðulegi forseti.

Mér finnst því rökin um nágrannalöndin ekki eiga við af þessum ástæðum og hvet þingheim til að samþykkja tillögu hv. þingmanna Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Unnar Brár Konráðsdóttur.

Síðan væri áhugavert að ræða það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi hér varðandi lyfjamálin og lyfjafræðingana. Ég held hins vegar að það væri æskilegt að þær breytingar sem yrðu á því sviði yrðu til þess að við sæjum lyfjafræðinga sinna þeim störfum sem tengist menntun þeirra því að þeir eru með afskaplega góða og öfluga menntun og hugsunin er sú að þeir séu að ráðleggja og fylgjast með lyfjanotkun sjúklinga. Ég held að við ættum að fara þá leið og hægt sé að fara þá leið og þrátt fyrir að hægt sé að gera margt áhugavert eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir vísaði til í tengslum við þetta held ég að það eigi að vera útgangspunkturinn að við eigum að nýta í meira mæli þekkingu og menntun þessarar hæfu starfsstéttar, lyfjafræðinga.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég lýsa yfir ánægju með að þessi vinna sé komin svona langt og að frumvarpið sé að verða að lögum. Mér þykir það afskaplega ánægjulegt og það er augljóst að það mikla starf ekki bara í þinginu, heldur líka þess vinnuhóps sem fór af stað undir forustu Daggar Pálsdóttur og skrifaði frumvarpið á sínum tíma, hefur skilað sér. Ég hef trú á því og vil trúa því að þetta verði að lögum. Ég vil hvetja hv. þingmenn og þingheim til að hugsa sig vel um varðandi breytingartillögu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Ég er sannfærður um að ef þingheimur fer vel yfir málið og hugsar það vel verður niðurstaðan sú að sú tillaga verður samþykkt.