140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Já, ég skal reyna að svara eftir því sem ég get. Ég skal fúslega játa að ég er enginn sérstakur sérfræðingur í þessum formúlum sem eru notaðar við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en þar eru menn að reyna að komast eins nálægt því og mögulegt er að gera mönnum glögga grein fyrir því hver heildarkostnaður við lántökuna sé. Það er auðvitað hárrétt að menn þurfa að gefa sér þar einhverjar forsendur, til dæmis um verðbólgu, þegar um verðtryggð lán er að ræða, en þannig verður það víst að vera. Ég kann ekki svör við því hvort einhver betri aðferð er tiltæk en sú sem þarna er lögð upp af sérfræðingunum.

Í öðru lagi varðandi Neytendastofu held ég að það verði að viðurkennast að að sjálfsögðu mætti búa betur að henni en tekist hefur á þrengingartímum undangenginna missira. Mér er vel kunnugt um áhugann á því að þeir geti ráðið að minnsta kosti eina manneskju í viðbót til að sinna alveg sérstaklega þessu viðfangsefni, sem er neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og þar á meðal og ekki síst að fylgja eftir réttindum sem lög um neytendalán eiga að færa fólki. Það er auðvitað mikilvægt.

Varðandi stöðlun eða samræmingu lánskjara vegna fasteignalána er hér verið að reyna að tryggja lágmarksrétt sem menn eigi alltaf að eiga á grundvelli þess að fasteignaveðlán séu flokkuð sem neytendalán, en það þýðir ekki sjálfkrafa að öll form og allt verði samræmt í þeim efnum, enda verður væntanlega að hafa eitthvert svigrúm til handa mismunandi fjármálastofnunum að bjóða upp á einhverja valkosti. En þeir eiga þá líka að liggja skýrir fyrir þannig að menn geti borið saman. Það er hugsun laganna hér að menn eigi alltaf rétt á greinargóðum upplýsingum til að geta borið (Forseti hringir.) saman mismunandi möguleika sem þeim standa til boða. Hvorki er ætlunin að taka af mönnum valfrelsið sjálft né heldur fjármálastofnunum eftir atvikum að bjóða upp á eitthvað mismunandi vöru.