140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög brýnt að hæstv. ráðherra kynni sér sérstaklega hvernig staðið er að útreikningi árlegrar hlutfallstölu kostnaðar þannig að það sé skýrt að verið sé að miða við að menn taki stöðuna á þeim degi sem ætlunin er að taka lánið og út frá því sé reiknað hvert verðlag, vextir og önnur gjöld verði þá óbreytt út frá þeim tíma.

Ég tel líka að við ættum að skoða það að gera þá kröfu að lánveitandi verði að setja upp mismunandi spá hvað varðar verðbólgu og þróun þannig að fólk geri sér grein fyrir því áður en það tekur lánið, skrifar undir, hvaða áhrif það gæti haft á greiðslubyrði þess ef verðbólgan færi til dæmis á flug.

Ég vil líka hvetja ráðherrann til að skoða hvort rétt sé að veita Neytendastofu sambærilegar valdheimildir á við Fjármálaeftirlitið eða Samkeppniseftirlitið. Ég nefndi hugmynd um það, þegar við vorum að ræða þingsályktunartillögu um neytendavernd, hvort ástæða væri til (Forseti hringir.) að sameina Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið eins og verið er að gera í Bretlandi. Þannig að raunverulega sé hægt að fylgja eftir úrskurðum Neytendastofu, ekki eins og er í dag (Forseti hringir.) þegar Neytendastofa er fullkomlega tannlaus.