140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spyr um reynsluna af þessari lagasetningu. Orðin sem koma upp í huga mér eru þau að hún var bitur og sár og það er mikil eftirsjá í því hvernig staðið var að þessu. Það að vera hér milli kl. 12 og 1 að nóttu að kalla eftir því að fá upplýsingar um hvernig reikna ætti þessi lán út og geta ekki fengið skýr svör frá því ráðuneyti sem lagði frumvarpið fram, þurfa síðan strax eftir jólafrí og áramótin að leita til ráðuneytisins til að ítreka það að setja þyrfti skýrar reglur, að sett væri upp svokallað skapalón eða raunar bara stærðfræðilíkan um hvernig ætti að reikna þetta, eins og endurskoðandinn Gunnlaugur Kristinsson gerði raunar síðan á endanum. Það kom svo aldrei, það tók langan tíma að veita umboðsmanni skuldara heimild til að fylgja því máli eftir. Þetta er akkúrat eins og ekki á að standa að lagasetningu.

Mér finnst þetta mjög miður vegna þess að ég held að við séum öll sammála um að við þurfum að bæta lagaumhverfið fyrir neytendalán. Það er ekki ásættanlegt eins og þetta er núna, það er ekki ásættanlegt hvernig skipan eftirlitsmála er háttað hvað varðar fjármálaafurðir og neytendavernd og því er maður svo ósáttur við að fá þennan lagabálk inn svona seint. Ég efast ekki um að þarna eru ákveðin ákvæði sem eru til bóta fyrir neytendur en, eins og hv. þingmaður benti á, við höfum bara 13 þingdaga til að vinna þetta mál og það skiptir svo miklu máli fyrir heimilin í landinu að við vöndum okkur.