140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur um virðingarleysi gagnvart vinnu okkar og hve sérkennilegt er að horfa til þess að sá hópur sem greiddi því atkvæði að halda til streitu fundi í kvöld skuli þá ekki vera hér og taka þátt í þeirri umræðu. Ég beini því til forseta að það þurfi kannski að taka til umræðu til hvers 1. umr. mála er. Ég hef alla vega skilið það svo, og viðurkenni að ég hef skamma þingreynslu, að það væri til þess að hér kæmu fram sjónarmið, hægt væri að ræða við ráðherra og menn kæmu með ólík sjónarmið til að skapa umræðu í nefndum þingsins. En þegar haldið er á spöðunum eins og hér er gert með því að halda kvöldfund þegar mjög margir þingmenn eru horfnir til annarra starfa út um land og borg og bý verður sú umræða hvorki fugl né fiskur. (Forseti hringir.) Er Alþingi afgreiðslustofnun, frú forseti?