140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér svona útúrsnúninga eins og fram koma hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, sem ætti kannski sem starfandi þingflokksformaður að athuga hvar hennar lið er vegna þess að mér telst til að hér séu fjórir þingmenn þingflokks hennar, en ég geri ráð fyrir að þeir hafi verið fleiri sem greiddu atkvæði með þessum ágæta kvöldfundi.

Umræðan snýst að sjálfsögðu um ömurleg vinnubrögð þessarar ömurlegu ríkisstjórnar alla tíð. Hér er búið að henda inn málum á síðasta degi fyrir frest og þeim ekki gefinn tími til að fá almennilega umræðu. Nú erum við með fullt af mikilvægum málum, segir hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Hvernig væri þá að gefa okkur þingmönnum færi á að ræða þau þegar þingmenn geta til dæmis gert ráð fyrir því að það séu þingfundir? Eins og fram hefur komið er hér skellt á þingfundi á mjög óhefðbundnum degi sem gerir að verkum að (Forseti hringir.) þingmenn eru bundnir annars staðar og geta ekki verið við þessa umræðu. Þess vegna er þetta alger útúrsnúningur. Ég bendi (Forseti hringir.) hv. þingflokksformönnum stjórnarflokkanna á að fara að koma með þá forgangsröðun sem beðið hefur verið eftir (Forseti hringir.) og boðuð hefur verið í margar vikur.