140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[20:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram sem mér sýnist við fyrstu sýn að sé mjög jákvætt.

Hér er vitnað til skýrslu starfshóps sem kom með tillögur og skilaði, held ég, í desember á síðasta ári og við í atvinnuveganefnd tókum til umtalsverðrar skoðunar í janúar- og febrúarmánuði. Við könnumst ágætlega vel við þessa tillögu. Ég vil aftur á móti spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé eina afurð þess starfshóps sem hæstv. iðnaðarráðherra hyggst leggja fram. Þar voru fjölmargar aðrar tillögur sem lutu að jöfnun húshitunarkostnaðar, ekki eingöngu sú að styrkja minni hitaveitur til að geta aflað eðlilegs fjár heldur snerust megintillögur hópsins kannski að því að jafna húshitun á öllu landinu og koma því til samræmis við eðlilegt markaðsverð á höfuðborgarsvæðinu með ákveðnum sveiflum. Eigum við von á frumvarpi sem lýtur að þessum þætti? Er unnið í iðnaðarráðuneytinu að heildarjöfnun? Þá er ég ekki bara að tala um jöfnun húshitunar á köldum svæðum heldur jöfnun raforkuverðs um land allt.

Ég ítreka þó, frú forseti, að mér sýnist þetta við fyrstu sýn nokkuð jákvætt en mér finnst skorta á að hér sé meira kjöt á beinum miðað við þann starfshóp sem skilaði ágætri skýrslu (Forseti hringir.) fyrr í vetur.