140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[20:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svar hæstv. ráðherra. Ég skil það þannig að næsta haust megum við eiga von á því að inn komi frumvarp sem komi þá öðrum tillögum starfshópsins í frumvarpsdrög sem við getum fjallað hérna um og gert að lögum um að jafna húshitunarkostnað. Er það ekki stefna ráðuneytisins að niðurstöður þessa starfshóps verði þar inntakið? Ég vona að ráðherra geti tjáð sig um það. Þó að hópurinn sé að hefja störf í ráðuneytinu hlýtur að liggja fyrir stefnumörkun af hálfu ráðherra eða ríkisstjórnar.

Ráðherra nefndi að það væru forréttindi fyrir þá sem búa á heitum svæðum að geta nýtt heitt vatn, og oft þá ódýrt, til húshitunar. Það má kannski segja að það séu ekki lengur nein forréttindi þegar við erum að tala um að allt að 90% þjóðarinnar búi við það, það er frekar orðin spurning hvenær við klárum að hitaveituvæða restina og ef það er ekki hægt, þá að koma til móts við þann hóp sem eftir stendur. Þetta var gríðarlegt átak og skref sem menn tóku bæði í að spara gjaldeyri, spara fé með því að hætta að nýta olíukyndingu og fara í hitaveituvæðingu og auðvitað líka gríðarlegt tækniframfaraskref og frumkvöðlastarf sem menn fóru í fyrir einum 40 árum þegar þessi væðing varð.

Ég spyr að lokum, frú forseti, hæstv. ráðherra hvort markmiðið sé ekki að jafna húshitunina en mig langar líka að vita hvort í ráðuneytinu sé unnið með tillögur þess efnis og hvort markmiðið sé þá að jafna raforkuverð á landinu öllu (Forseti hringir.) þannig að allir landsmenn sitji við sem jafnast borð hvað snertir íslenskt rafmagn.