140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[20:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar og tek undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni, þetta virðist frekar jákvætt mál og því ber að fagna.

Það segir í athugasemdum við frumvarpið að þessi breyting sé enn fremur liður í stefnumörkun ríkisins um aukna nýtingu jarðvarma á landsvísu.

Í seinasta andsvari voru hv. þingmaður og hæstv. ráðherra meðal annars að ræða um jöfnun raforkuverðs. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra þó að það sé kannski ekki alveg efni þessa frumvarps, en þó, hvað líði umsókn Hrunamannahrepps og Bláskógabyggðar vegna dreifiveitu sem þau sveitarfélög hafa í hyggju að setja á laggirnar og eru þá að hugsa það fyrst og síðast til að lækka kostnað við raforku til garðyrkjunnar. Það hefur komið fram í máli þeirra og þau hafa meðal annars kynnt fyrir þingmönnum Suðurkjördæmis að þetta er afar hagkvæm framkvæmd og mundi taka kringum fimm ár að borga sig upp. Þetta er til meðferðar í ráðuneytinu eftir því sem mér skilst. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún gæti gefið okkur hér stöðu þessara mála, sagt okkur hvernig þeim er háttað, hvenær búist er við að svar liggi fyrir og hvar málið sé statt í ráðuneytinu. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að það er talað um mikilvægi garðyrkjunnar og ylræktar á tyllidögum og hér hefur ríkisstjórnin tækifæri til að sýna hug sinn í verki.