140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[20:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er jákvætt og ekki margar athugasemdir sem þarf að gera við það í sjálfu sér. Með því er verið að opna á möguleikann á því að ef tiltekin hitaveituframkvæmd hefur fengið styrk frá hinu opinbera sé tryggt að sá styrkur dragist ekki frá þeim styrk sem kveðið er á um í 12. gr. laganna sem gæti hins vegar leitt til þess að forsendur fyrir byggingu hitaveitu bresti. Þetta hefur fyrst og fremst þýðingu fyrir hinar smærri hitaveitur. Tilefnið sýnist mér af þessu frumvarpi núna sérstaklega, og gerir það brýnt að ljúka þessu máli núna, sú staða sem uppi er varðandi hitaveituframkvæmd á Skagaströnd. Þar tók sveitarstjórnin þá jákvæðu og góðu ákvörðun að ráðast í hitaveituframkvæmdir og leiða heitt vatn frá Blönduósi út á Skagaströnd. Það er býsna kostnaðarsamt en getur orðið til mikilla hagsbóta fyrir íbúana. Skagstrendingar búa, eins og um 35 þús. Íslendingar, við mjög hátt orkuverð og þetta er viðleitni sveitarstjórnarinnar á Skagaströnd til að bæta lífsskilyrði þar með því að reyna að lækka húshitunarkostnað með þeirri aðferð að leiða hitaveitu þangað út eftir og stuðla þannig að lægri húshitunarkostnaði.

Fyrir litlar hitaveitur getur þetta þó verið býsna dýrt og hlutfallslega miklu dýrara auðvitað en fyrir stærri hitaveitur sem selja sína orku inn á stærri orkuveitusvæði. Þess vegna var á sínum tíma sett upp þetta kerfi til að geta styrkt þær hitaveitur með einhverjum hætti. Það má kannski segja að fram til þessa hafi það ákvæði sem nú er í lögum ekki verið mjög íþyngjandi en það getur orðið mjög íþyngjandi ef um er að ræða stærri framkvæmdir, eins og í tilviki Skagastrandar. Á sínum tíma var ráðist í þessa framkvæmd eftir hinn mikla þorskaflaniðurskurð á árinu 2007. Þá varð það niðurstaða þáverandi ríkisstjórnar að koma til móts við ýmis sveitarfélög og svæði sem urðu sérstaklega illa úti í hinum tímabundna niðurskurði á þorskaflaheimildum. Þá held ég að vísu að enginn hafi haft hugarflug til þess sem hæstv. ríkisstjórn er núna að boða, að þeir sem tækju á sig niðurskurðinn í þorskaflaheimildunum fengju ekki að njóta aukningarinnar þegar til hennar kæmi. Það er önnur saga og við munum örugglega ræða það allmiklu betur síðar á þessu þingi ef ríkisstjórninni auðnast það óhappaverk sitt að afgreiða frumvarp til laga um breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum út úr þingnefnd og inn í þingið að nýju.

Stóra málið er þá að með þessu frumvarpi hérna er reynt að opna á það að styrkir sem eru veittir til að greiða niður stofnkostnað við hitaveitur við þessar aðstæður komi ekki til frádrags þegar þessi mál verða öll gerð upp. Það getur gjörbreytt öllum forsendum fyrir byggingu hitaveitna á þessu svæði.

Sú tillaga sem hér er um að ræða varð til í nefnd sem skipuð var af hæstv. ríkisstjórn eftir fund sem haldinn var á Ísafirði 5. apríl 2011. Þetta getum við sagt þá að sé fyrsti og eini sjáanlegi afraksturinn af þeirri nefndarskipan. Ég vek athygli á tímasetningunni í þessu sambandi, 5. apríl 2011 er ákveðið að skipa þessa nefnd og hún var skipuð eitthvað síðar. Hún var skipuð fulltrúum frá hinum svokölluðu köldu svæðum og líka pólitískum fulltrúum og fulltrúum úr ráðuneytum þannig að fyrir fram hefði maður ímyndað sér að þær tillögur sem þar litu dagsins ljós og voru gerðar opinberar í desember síðastliðnum yrðu umsvifalaust grundvöllur að nýju lagafrumvarpi sem tæki á húshitunarmálunum almennt, yrðu þar með kynntar fljótlega í byrjun þessa árs og lagðar fram í frumvarpsformi sem Alþingi gæti þá tekið afstöðu til.

Því er alls ekki að heilsa. Frumvarpið sem við erum hér að ræða er nánast eins og aukasetning í þeim tillögum sem fram koma í þessari nefndarvinnu. Er ég ekki að gera lítið í sjálfu sér úr þeirri aukasetningu, hún skiptir sannarlega máli fyrir einstaka framkvæmd, a.m.k. á þessu tímabili núna. Það kann að vera að það opni líka möguleika í framtíðinni fyrir einhverja aðra, við vitum það ekki. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að hæstv. starfandi iðnaðarráðherra svaraði þeirri spurningu minni hvort í pípunum væru, kannski í orðsins fyllstu merkingu bókstaflega talað, einhverjar þær hitaveituframkvæmdir sem gætu notið góðs af þeirri lagabreytingu sem hérna er verið að boða ef þetta verður að lögum.

Það kemur líka fram í þessu frumvarpi að þessu umrædda frádráttarákvæði í 1. mgr. 12. gr. laganna um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar hafi verið beitt fimm sinnum á tíu ára tímabili, sem sagt annað hvert ár. Hvað skyldi frádrátturinn nema hárri upphæð? Alls 26 millj. kr. Það kemur fram í áliti fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að frádrátturinn sem þetta frumvarp, sem er eini afraksturinn sem við höfum séð af verki þeirrar nefndar sem ríkisstjórnin skipaði með miklum lúðrablæstri og söng fyrir 13 mánuðum, nemi sem sagt 26 millj. kr., að jafnaði þá 2–3 milljónum á ári. Þar með er ekki hægt að segja annað um þetta frumvarp en að þarna hafi fjallið tekið jóðsótt og að lítil mús hafi fæðst. Þetta er afraksturinn af allri vinnunni.

Ég hefði til dæmis talið eðlilegt í þessu sambandi, jafnvel þó að hæstv. ríkisstjórn treysti sér ekki til þess í sínum miklu önnum að klára þá vinnu sem unnin var af nefnd sem hæstv. ríkisstjórn skipaði á þessum hátíðarfundi vestur á Ísafirði fyrir 13 mánuðum, að önnur svona tengd atriði sem sneru beinlínis að hitaveituframkvæmdunum yrðu þá tekin með í þessu slengi. Þá yrði að minnsta kosti séð til þess að ákvæði í núgildandi lögum sem lýtur að því þegar farið er í hitaveituframkvæmdir með heimild til að ráðstafa sem svarar niðurgreiðslustyrkjunum heimili það að nota þessa styrki til að lækka stofnkostnað. Slíkar niðurgreiðslur mætti þá nota í þessum tilgangi um átta ára skeið. Upphaflega var þetta að mig minnir um fjögurra ára skeið en er búið að lengja upp í átta ár. Með tillögu nefndarinnar sem ég er búinn að gera aðeins að umræðuefni var gert ráð fyrir því að þessir styrkir gætu gilt í allt að 12 ár.

Af hverju er þetta gert núna? Jú, vegna þess að einmitt við aðstæður sem þessu frumvarpi er ætlað að taka til, til dæmis hitaveituframkvæmdir í dreifbýlum héruðum þar sem notendur eru tiltölulega fáir, þar sem þarf að flytja orkuna um tiltölulega langan veg, þar sem stofnkostnaður í lögnum og öðru slíku er hlutfallslega mikill, er hægt að nota niðurgreiðslupeningana eða ígildi þeirra til að greiða niður stofnkostnaðinn um átta ára skeið. Tillaga nefndarinnar er sem sagt sú að það tímabil lengist upp í 12 ár. Það blasir við hverjum manni að það getur auðvitað gjörbreytt öllum forsendum til frekari hitaveituvæðingar í landinu.

Á vegum hæstv. iðnaðarráðherra sem þá var starfandi voru kynnt hér á sínum tíma drög að byggðaáætlun. Þá var því slegið föstu að hitaveituframkvæmdir væru nánast úr sögunni í landinu umfram það sem núna væri þekkt. Hitaveitusvæðin sem menn þekktu væru af þeim toga að ekki væri við því að búast að þær framkvæmdir gætu þjónað stærri notendahópi en þær gera í dag. Höfuðborgarsvæðið og náttúrlega þau önnur landsvæði og sveitarfélög sem hafa hitaveitur í dag gætu vænst þess að njóta hitaveitna um ókomin ár en önnur svæði sem hafa verið að leita að heitu vatni, m.a. með styrk úr Orkusjóði, gætu gleymt því. Nú ættu menn að snúa sér annars vegar að varmadælum og hins vegar að því að kynda upp húsin sín með lurkum! Það var svar hæstv. ríkisstjórnar við ákalli manna um að reyna að lækka húshitunarkostnaðinn í landinu.

Það sem menn hafa horft til er að á mörgum stöðum er hægt að fara í aukna notkun á heitu vatni, það er jafnvel til staðar nægjanlegt heitt vatn en það eru hins vegar ekki fjárhagslegar forsendur miðað við það sem við búum við í dag að fara í framkvæmdir á mörgum dreifbýlum svæðum vegna þess að þessi niðurgreiðslustofnstyrkur er bara til skemmri tíma. Þess vegna hafa menn mjög kallað eftir því að þetta gæti verið til lengri tíma.

Eitt af því sem kemur fram í tillögum þess starfshóps sem ég gerði að umtalsefni er að þessi tími verði lengdur. Þau segja hér, með leyfi virðulegs forseta:

„Tillögur starfshópsins hafa einnig áhrif á samkeppnisstöðu jarðvarmaveitna gagnvart rafhitun en sama ætti einnig að gilda um stofnstyrki veitna, þ.e. að hærri eingreiðsla ætti að vera í boði fyrir nýframkvæmdir með nýjum tillögum. Þar sem eðli jarðvarmaveituframkvæmda er að þeim fylgir hár stofnkostnaður en lágur rekstrarkostnaður ættu hærri stofnstyrkir að vega þungt í hagkvæmni slíkra framkvæmda. Til að tryggja enn frekari jarðvarmavæðingu er lagt til að viðmiðunartími stofnstyrkja verði rýmkaður. Lagt er til að sérstök nefnd sérfræðinga meti stofnstyrkjaþörf hverrar framkvæmdar fyrir sig og verði heimilt að lengja stofnstyrkjaframlagið í allt að 12 ár ef þörf krefur.“

Nú vill svo til að fjölmargir aðilar sem standa að hitaveiturekstri, t.d. sveitarfélög, hafa komið að máli við mig og marga þingmenn, hygg ég, og ég fullyrði að þeir hafa talað við iðnaðarráðuneytið í því skyni að fá þessari tillögu hrint í framkvæmd. Ef það yrði gert væri hægt að nýta jafnvel fjárfestingu sem þegar er til staðar í stofnbúnaði, borholum, dælubúnaði og öðrum slíkum hlutum, en það eru ekki forsendur til þess ef menn þurfa að búa við það að þessir styrkir séu takmarkaðir eins og þeir eru í dag. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, enn og aftur að það hefði verið eðlilegt, úr því að farið er að hreyfa þessu máli á annað borð og hæstv. ríkisstjórn treystir sér ekki til þess að taka stærra skref en hér er þó verið að taka, að hafa að minnsta kosti með í þessu viðhengi þá tillögu sem starfshópurinn leggur áherslu á og hefði í sjálfu sér verið býsna útlátalítil fyrir ríkissjóð. Það hefði fyrst og fremst orðið til þess að nýta fjárfestingarnar betur og reyndar hvetja til arðbærra framkvæmda, að því gefnu að hægt væri að greiða niður stofnkostnaðinn sem þessu nemur. Þar með hefði verið hægt að auka umsvif, m.a. á svæðum sem hafa mjög lengi búið við neikvæðan hagvöxt eins og við þekkjum. Ég tek sem dæmi Norðvesturland, þar eru ótal tækifæri. Skagafjarðarveitur hafa verið að velta fyrir sér að lengja mjög stofnlínur til að dreifa heitu vatni út á bæi sem ekki geta notið þess núna. Við þekkjum fjölmörg dæmi þar sem bæir liggja býsna nærri þessum lögnum en geta ekki notið þess að fá heitt vatn einfaldlega vegna þess að fjárfestingin sem því nemur er of mikil til að lítil orku- og veitufyrirtæki geti leyft sér að fara í þetta. Þess vegna er svo mikilvægt að reyna að lækka fjárfestingarkostnaðinn með því að fara í einhver slík verkefni.

Þetta dæmi frá Skagaströnd ætti að vera mikil fyrirmynd. Þar var það ekki síst þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, sem beitti sér mjög hart fyrir því máli. Það þurfti svo sem ekki miklar fortölur í þeirri ríkisstjórn, hún hafði mikinn skilning á byggðamálum og mörgum öðrum málum, en engu að síður var það hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra sem hafði að þessu frumkvæði og á þakkir skildar fyrir það, auðvitað sérstaklega þó framsýni Skagstrendinga sjálfra.

Ég ítreka að í sjálfu sér fagna ég þessu frumvarpi. Þetta er hins vegar dæmi um það að fjallið hefur tekið jóðsótt og það hefur fæðst lítil mús, en mjór er kannski mikils vísir. Ég ítreka að ég tel eðlilegt að atvinnuveganefnd íhugi það að gera breytingartillögu á þessu frumvarpi, a.m.k. að því leytinu að það feli í sér möguleika á því að (Forseti hringir.) stofnstyrkjaframlagið geti verið í allt að 12 ár ef þörf krefur.