140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór ekki fram hjá hv. þingmanni, ég hafði einfaldlega ekki tíma til að fara nánar út í þær tillögur sem þessi ágæta nefnd skilaði af sér á sínum tíma um lækkun húshitunarkostnaðar. Það voru að mínu mati mjög góðar tillögur og það sem meira var, þetta voru líka mjög ábyrgar tillögur í þeim skilningi að málinu var ekki vísað óútfylltu til ríkissjóðs heldur voru gerðar tillögur um það með hvaða hætti ætti að fjármagna þann augljósa viðbótarkostnað sem yrði af því að fara út í frekari niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði.

Það er einmitt vandinn sem við höfum glímt við. Eins og ég hef orðað þetta höfum við stundum unnið góða stundarsigra. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan að fyrri hluta tímabilsins sem menn hafa haft til skoðunar, sem er frá árinu 2005, gekk þetta prýðilega framan af en um leið og fór að slá í bakseglin létu þessar fjárveitingar undan síga. Þær hafa lækkað mjög mikið að raungildi sem hefur aftur þýtt það að húshitunarkostnaðurinn hefur aukist.

Það er tillaga starfshópsins að leggja tiltekið jöfnunargjald á alla selda raforku. Niðurstaða hans er sú að til að fjármagna þennan aukna kostnað þurfi að leggja á 0,1 kr. á kílóvattstundina, það er allt og sumt. Það gefur augaleið að það mun ekki hafa nein teljandi áhrif á húshitunarkostnað nokkurs manns þó að við tökum með samfélagslegum hætti þá ákvörðun að taka á okkur þessar byrðar, 0,1 kr. á kílóvattstund, til að standa undir húshitunarjöfnun í landinu að því marki sem þarna er lagt til. Þarna er ekki verið að leggja til að ganga alla leið, t.d. að lækka húshitunarkostnaðinn vítt og breitt um landið til jafns við það sem er í Reykjavík. Það er eingöngu verið að tala um að greiða niður flutning og dreifingu á rafmagninu til að það leggist ekki á þær fáu herðar sem (Forseti hringir.) standa undir þessu mikla kyndingarkostnaði á landsbyggðinni. Hér er að mínu mati um að ræða (Forseti hringir.) mjög hóflega og ábyrga tillögu sem ætti ekki að vefjast fyrir hæstv. ríkisstjórn að hrinda í framkvæmd.