140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg klárt og ég tek alveg undir það að þessi 200 manna samlíking við þéttbýli er svolítið sérkennileg, sérstaklega í ljósi þess að menn hafa horft upp á það — talandi um garðyrkjuna enn og aftur, menn gætu líka verið að tala um fiskeldi, loðnubræðslu eða eitthvað slíkt í fámennu byggðarlagi — að þar er nýtt miklu meira magn af orku en í 700 manna byggð eða jafnvel í 2.000 manna byggð. Í 2.000 manna byggð er náttúrlega umtalsverður fjöldi tenginga og það hefur verið mér óskiljanlegt satt best að segja að Rarik hafi haft þann taxtann á að segja að ódýrara sé að fara inn með 200 tengingar eða 2.000 tengingar, ef um svo stóra byggð væri að ræða, við skulum segja eins og Árborg þar sem 7.500 manns búa, heldur en að fara inn í eina garðyrkjustöð sem nýtir jafnmikið rafmagn með eina tengingu, einn stóran og breiðan kapal og ekki einu sinni mjög langt frá spennistöð.

Ég hef talað lengi fyrir því að einungis hafi þurft reglugerðarbreytingu. Gott er að taka dæmi um lítið þorp, Laugarás í Biskupstungum, þar sem búa innan við 200 manns en nýta raforku eins og um þúsund manna byggð væri að ræða, ef ekki meir. Við það eitt að þessi reglugerð var sett á, að það dygði 50 manns í íbúakjarna, þá lækkaði taxtinn þar úr dreifbýlistaxta í þéttbýlistaxta, þannig að garðyrkjustöðvarnar þar bjuggu allt í einu við allt annað rekstrarumhverfi en garðyrkjustöð sem var rétt utan við Laugarás sem þarf að halda áfram að kaupa á dreifbýlistaxta.

Það sem reglugerðin gerði hins vegar ekki en hefði getað gert — af því að hún var ekki miðuð við garðyrkjuna, hún var miðuð við Grundartanga, það kom fram hjá starfsmanni ráðuneytisins — ef hún hefði verið miðuð við garðyrkjuna hefði magnið verið miðað við 50 manns, (Forseti hringir.) 5 megavött eða 10 km frá spennistöð, þá hefði það dugað enn stærri hluta garðyrkjunnar og hugsanlega (Forseti hringir.) öðrum stórnotendum í landinu