140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er aðdáunarvert hvernig þingmönnum Framsóknar tekst að koma samvinnuhreyfingunni inn í alla umræðu í þinginu og var augljóst á orðum hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar að hann var búinn að finna hér mikið sóknarfæri fyrir samvinnuhreyfinguna, sem flestir héldu að væri dáin drottni sínum, en víða eru sóknarfærin. Ég vil þó hins vegar segja að ég held að við ættum að hlusta vel eftir þeim hugmyndum sem hv. þm Sigurður Ingi Jóhannsson var með, vegna þess að við vannýtum örugglega fyrirtæki sem eru án hagnaðar og á við á sumum stöðum eins og þarna. Það er náttúrlega bara sjálfsagt, ef einhver vill setja svona fyrirtæki af stað, að hann hafi frelsi til þess, en ég held að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hafi fært góð rök fyrir því að ýmislegt væri hægt að gera til að jafna húshitunarkostnað.

Ástæðan fyrir því að ég vísa í orð hans er að mér finnst þetta frumvarp hér vera ótrúlega rýrt, virðulegi forseti. Ef ég skil þetta rétt er það til komið eftir flottan hátíðarfund hjá hæstv. ríkisstjórn á Vestfjörðum þar sem var lofað öllu fögru í atvinnumálum. Við sitjum síðan uppi með þetta plagg sem er afar þunnt, ekki bara í pappír heldur líka efnislega. Hér á að breyta reglum þannig að frádráttur, sem hefur verið 26 millj. kr. frá árinu 2003, í níu ár væntanlega, hverfi. Það er niðurstaðan úr þessari skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar, sem er nú mannaður góðu fólki.

Ég veit ekki hvort það á að gera grín að þessu, það er auðvitað ekki hægt. Það kemur hvert málið á fætur öðru frá ríkisstjórninni sem er hvorki fugl né fiskur og virðist fyrst og fremst vera lagt fram til að hægt sé að segja að búið sé að leggja eitthvert mál fram. Meira að segja í þeirri litlu umræðu sem var um frumvarp um neytendalánin áðan, kom í ljós þegar maður fór að skoða helsta kjarnann í því, að það virtist eiga að setja í lög eitthvað sem er framkvæmt núna, og þá er ég að vísa í lánshæfismatið og greiðslumatið.

Virðulegi forseti. Ég held að þegar horft er á stóru myndina sé vandinn sá að í hinum dreifðu byggðum eru ákveðnir hlutir dýrari en í þéttbýlinu. Alla jafna eru neysluvörur eins og matvæli og annað slíkt dýrari, flutningur er dýrari og kemur fyrst og fremst til út af miklum flutningskostnaði og fámenni, og svo er oft á tíðum mjög dýrt að hita upp hús.

Ég mundi ætla að við þær aðstæður sem núna eru uppi, ættu menn að líta á þetta í stærra samhengi og setja sér metnaðarfull markmið. Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að búa til endalaus niðurgreiðslukerfi sem gera ekki annað en að færa fjármuni á milli staða á landinu. Mér finnst það hvorki vera skynsamlegt til skemmri né lengri tíma, hvað þá sýna metnað. Ég mundi ætla, virðulegi forseti, að nú væri lag að setja upp metnaðarfulla áætlun um hvernig við getum nýtt umhverfisvæna, innlenda orkugjafa sem víðast um landið. Við gerðum þetta áður, ég kann þá sögu ekki vel en ég man hins vegar þegar ég var strákur í Borgarnesi og hitaveitan kom. Það var mjög metnaðarfullt verkefni, stórmál þar sem heilt bæjarfélag var lagt undir og öllu skipt út. Vissulega var það dýrt og það var verið að borga hana niður í langan tíma, en allt í einu var bærinn orðinn miklu hreinni og við vorum hætt að nota dýra, erlenda olíu og notuðum þess í stað innlendan, umhverfisvænan orkugjafa.

Nú vitum við að það er snúið að gera þetta á öllum stöðum. Margir staðir á Íslandi eru það sem kallað er kaldir en þeim stöðum fer samt fækkandi út af tækninýjungum. Jafnvel þótt hugsanlega sé hægt að ná í heitt vatn á ýmsum stöðum er hlutfallslega dýrt að kynda fá hús.

Er heita vatnið eina leiðin? Nei, það er ekki eina leiðin. Í skýrslu vinnuhópsins er bent á að til eru ýmsir aðrir umhverfisvænir orkugjafar, t.d. grisjunarviður, kurl og viðarpillur. Síðan erum við til dæmis að nota metan á bíla og allur heimurinn keppist núna við að finna umhverfisvæna orkugjafa. Ætli mörg lönd hafi til þess betra tækifæri en Ísland? Ég efast um það. Ég hélt að þegar við færum að ræða um frumvarp um breytingu á lögum um niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði, sem er afrakstur af hátíðarfundi hæstv. ríkisstjórnar og afrakstur vinnu starfshóps sem skilaði af sér í desember 2011, mundum við að tala um einhverja hluti sem skipta máli og menn væru að stefna til framtíðar. Ég hélt að við mundum kannski sjá áætlun um hvernig við ætlum að minnka notkun erlendra orkugjafa og láta innlenda umhverfisvæna orkugjafa taka við. En það er öðru nær, virðulegi forseti. Við sitjum uppi með þetta plagg á einu A5 blaði, sem snýst um að breyta ákvæðum lítillega þannig að frádráttarákvæði sem beitt hefur verið fimm sinnum frá árinu 2003 verði ekki lengur til staðar, en samt sem áður er þessu jafnað út með öðrum hætti þannig að enginn kostnaður sé fyrir ríkissjóð. Ég er ekki að biðja um aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, ég bið hins vegar um framtíðarsýn í þessum málum.

Við Íslendingar höfum núna þá sérstöðu að vegna þess að við höfðum framtíðarsýn, vegna þess að við tókum stór skref og höfum nýtt umhverfisvæna orkugjafa, stöndum við framar en aðrar þjóðir hvað það varðar. Það er ekkert lítið mál því að ef allar þjóðir væru eins og Íslendingar, virðulegi forseti, hefði ekki þurft neitt Kyoto-samkomulag. Þá hefðu menn ekki áhyggjur af gróðurhúsaáhrifunum vegna þess að langstærstur hluti orkunýtingar okkar kemur frá umhverfisvænum orkugjöfum, langstærstur, mig minnir að hluturinn sé 70%, jafnvel hærri.

Það þýðir ekki að við eigum að láta staðar numið. Við eigum að nota þá þekkingu sem við eigum. Hún er í orkufyrirtækjunum, hún er í háskólunum, hún er á verkfræðistofunum. Því miður er það svo að þessar stofnanir, sérstaklega verkfræðistofurnar, hafa verið að missa fólk, sérstaklega yngra fólkið, með þessa þekkingu til annarra landa og þar er sú þekking nýtt. Það er algjör misskilningur að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem má nýta til dæmis jarðvarma, því fer víðs fjarri. Víða í Evrópu er hægt að nýta jarðvarma og um alla Ameríku, bæði Suður-, Mið- og Norður-Ameríku er sama staða uppi.

Sérstaða okkar hefur verið sú að við höfum haft þá framsýni að nýta það sem náttúran hefur upp á að bjóða á Íslandi og nú er lag, virðulegi forseti, að stíga næstu skref. Við eigum mannskapinn, við eigum mannauðinn, sem er eitthvert tískuorð, og það er engin einasta spurning að hagsmunir okkar Íslendinga eru algjörlega þeir að færa okkur yfir í innlenda orkugjafa eins mikið og mögulegt er. Við eigum að líta á þau sem tækifæri, þessi litlu svæði þar sem er óhagkvæmt eða ekki nægjanlega hagkvæmt að bora eftir heitu vatni og of dýrt að flytja rafmagn þangað með þeim kerfum sem við höfum núna. Við eigum að líta á það sem tækifæri að nýta aðra möguleika sem eru til staðar.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin fellur á þessu prófi eins og mörgum öðrum. Ég veit ekki hvort menn geta verið mjög á móti þessu máli, ég efast um það. En hins vegar er tími okkar dýrmætur, tími fólksins í stjórnkerfinu er dýrmætur. Það tækifæri sem svo sannarlega gafst til að koma fram með metnaðarfulla áætlun, ég tala nú ekki um eftir að menn höfðu blásið í herlúðra og farið út um land á hátíðarfundi til að sýna hversu mikill áhuginn væri á að koma til móts við þarfir viðkomandi svæða, var ekki nýtt og það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að menn sitji uppi með þetta.

Þetta minnir mig á það, virðulegi forseti, þegar ríkisstjórnin fór á Reykjanes, sem er sá staður sem hefur komið hvað verst út úr varðandi atvinnuleysi og annað slíkt, og haldinn var mjög flottur fundur í víkingaskipinu með öllum helstu fyrirmönnum ríkisstjórnarinnar. Niðurstaðan var ansi rýr, hvort það var ekki eitt stríðsminjasafn. Ég vil ekki gera lítið úr því, en það er afskaplega lítið í samanburði við það að ríkisstjórnin stóð í vegi fyrir alls kyns uppbyggingu á Reykjanesi eins og við öll þekkjum. Það er gömul saga og ný og afskaplega sorgleg saga um þá sem verða fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, og stundum er það reyndar þannig að aðgerðir ríkisstjórnarinnar koma í veg fyrir uppbyggingu. Það gerðist sannarlega á Reykjanesi, við getum bara nefnt heilbrigðismálin og ég tala nú ekki um orkumálin, en örugglega mætti fleira nefna. Það er ótrúlegt hvernig framganga ríkisstjórnarinnar hefur verið gagnvart þeim landshluta. Þetta kemur auðvitað fyrst og fremst niður á fólkinu sem þar býr og kemur niður á Íslendingum.

Ég hefði svo gjarnan viljað að við værum hér að ræða um metnaðarfull skref á þessu sviði. Þegar við urðum fyrir því áfalli sem bankahrunið var, var þó ánægjulegt að allra handa sprotar mynduðust, fólk er að fara af stað með verkefni og fyrirtæki sem maður hafði ekki hugmyndaflug til að ímynda sér. Það er auðvitað frábært og mjög spennandi. Þegar allt er í blóma verða menn kannski værukærir, eins og í tilfelli okkar Íslendinga, en við getum líka litið til annarra landa eftir svipuðum dæmum. Í tilfelli okkar Íslendinga var allt í einu öll áhersla á fjármálakerfið og þar vildi flest ungt fólk vera, það var sömuleiðis ansi mannaflsfrekt og sogaði til sín einstaklinga úr öllum greinum og mikla orku, þannig hlutir eins og þessir voru í skugganum. Við sjáum svipaða hluti í Noregi; þegar olíuiðnaðurinn er í þeim mikla blóma sem þar er kemur það niður á öðrum greinum. Við aðstæður eins og þessar eru því tækifæri til að fara á slóðir sem við höfum kannski ekki sinnt en eru svo sannarlega spennandi. Ég sé spennandi möguleika á húshitun í hinum dreifðu byggðum, litlu köldu svæðunum — þetta eru kannski ekki lítil svæði en þar býr fátt fólk. En þetta frumvarp verður í það minnsta ekki liður í að nýta þau tækifæri.

Ég vonast bara til þess að við munum fyrr en seinna ræða hlutina undir öðrum formerkjum, að þá munum við tala um að nýta mannauðinn og þau tækifæri sem við eigum á Íslandi til þess að lækka húshitunarkostnað til skemmri og lengri tíma á þeim svæðum þar sem hann er hár, en þetta frumvarp stendur ekki undir þeim væntingum.