140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[22:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hæstv. ráðherra hefði hlustað á ræðu mína hefði hún ekki talað með þeim hætti sem hún gerði hér. En það er áhugavert að heyra að ég sé ásakaður um að tefja málið þegar ég er búinn að tala í 15 mínútur um þetta stóra mál. Það væri ágætt að vita hvað hæstv. ráðherra vill skammta mér mikinn tíma varðandi þetta stóra mál. Hvað má ég tala lengi í þessu máli án þess að hæstv. ráðherra komi hér upp og ásaki mig fyrir að tefja málið? Þessi málflutningur er ekki boðlegur.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég fór yfir það í ræðu minni að ég teldi að nú væru mjög mikil tækifæri á þessu sviði. Hver einasti hv. þingmaður sem hér talaði sagði að lítill metnaður væri í þessu frumvarpi. Reyndar fór ég yfir það og vísaði í niðurstöðurnar í starfshópnum að mér hefði fundist vanta að menn ræddu í stærra samhengi hvernig þeir vilja sjá þetta gert, að við litum ekki einungis til nánustu framtíðar hvað það varðar.

Ef hæstv. ráðherra ásakar einhvern um að hlusta ekki á ræðurnar ætti hún að líta sér nær. Eins hafna ég því algjörlega að ég sé að tefja stórt mál, sem ég hef áhuga á, þegar ég hef talað um það í 15 mínútur. Reyndar tók ég það fram að ég væri ekki á móti málinu og mér sýndist hæstv. ráðherra í það minnsta horfa á ræðustólinn þegar ég talaði þannig að ég taldi að hún væri líka að hlusta. En kannski var hæstv. ráðherra bara að ímynda sér hvað sá sem hér stendur var að segja og lagði síðan út frá því. Það er auðvitað mögulegt en það er erfitt að ræða það út frá þeim forsendum.