140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[22:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði aldrei að ég væri á móti þessu frumvarpi, reyndar sagði ég að ég teldi að ég mundi styðja þetta frumvarp. Ég fór hins vegar yfir tillögur starfshópsins og mér fannst og finnst enn vanta í þær meiri metnað. Ég var að vísa í það, svo ég reyni að endursegja stærsta hlutann af því sem ég sagði áðan, að mér finnst að við þessar aðstæður ættum við að nýta tækifærið og ekki líta bara til millifærslukerfis. Ég átta mig á því að hluti af tillögum starfshópsins gengur út á millifærslukerfi til þess að byggja upp hitaveitur en fram kemur í niðurstöðum starfshópsins að honum finnst vanta að ýtt sé undir að nýtingu annarra umhverfisvænna orkugjafa en þeirra sem við höfum nýtt fram til þessa.

Það er það sem ég hefði viljað sjá lagt meira út af í niðurstöðum starfshópsins. Það var kannski ekki uppleggið en ég mundi ætla að nú væri lag fyrir okkur, til dæmis í samvinnu við háskólana okkar, að reyna að nýta þau tækifæri sem við eigum sem eru á fleiri sviðum en bara í hinni hefðbundnu raforkuframleiðslu eins og við þekkjum hana og sömuleiðis í jarðhitaverkefnum. Það á sér stað þróun um allan heim og við verðum að setja okkur það markmið að vera áfram í fremstu röð þegar kemur að umhverfisvænum orkugjöfum. Ég hefði viljað sjá áætlun um hvernig við ætluðum að ná yfir hin köldu svæði sem hér eru með fleiri aðferðum en við höfum verið að beita. Það er það sem ég sagði og mér finnst áhugavert og mikilvægt að við ræðum það hér (Forseti hringir.) á hinu háa Alþingi.