140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Í nýrri skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands kemur fram að kjaraskerðing heimilanna var að jafnaði 27% vegna hrunsins. Hluti af hruninu var mikil lækkun á gengi krónunnar sem hefur leikið stærsta hlutverkið. Hrun krónunnar rýrði kaupmátt launa og annarra tekna með miklum verðlagshækkunum og hækkaði einnig skuldir heimilanna og greiðslubyrði lána en það eru tveir stærstu þættir kjaraáhrifanna af hruninu. Gengisfallið er tekjutilfærsluaðgerð sem flytur kaupmátt frá heimilum til útflutningsfyrirtækja. Betri staða útflutnings hefur vissulega minnkað atvinnuleysi, en ég spyr: Réttlætir það þau miklu kjaraskerðingaráhrif á heimilin í formi rýrari kaupmáttar og aukinnar skuldabyrði sem svo dregur úr einkaneyslu og skapar þar með atvinnuleysi innan verslunar og þjónustu?

Draga má reyndar í efa að bætt afkoma útflutningsatvinnufyrirtækjanna aftri atvinnuleysi svo um muni. Útflutningsatvinnuvegirnir, einkum sjávarútvegur og orkufrekur iðnaður, eru ekki sérlega stórir vinnuveitendur á íslenskum vinnumarkaði og fátt bendir til að þeir auki verulega vinnuafl sitt í kjölfar gengisfellinga. Samdráttur einkaneyslu sem fylgir kjaraskerðingu heimilanna er hins vegar til þess fallinn að draga verulega úr fjölda þeirra starfa í þeim atvinnugreinum sem þjóna heimilunum, svo sem byggingariðnaði, verslun og þjónustu. Í þessum greinum varð atvinnuleysisvandinn einmitt mestur í núverandi kreppu. Kjaraskerðingaráhrif gengisfellinga með samdrætti í einkaneyslu eru þannig ekki síður líkleg til að skapa atvinnuleysi en þrengingar í útflutningsatvinnuvegum. Það er því alger mýta, virðulegi forseti, að krónan sé með einhverjum hætti að hjálpa okkur út úr þeirri kreppu sem við stöndum frammi fyrir. Gögnin segja allt annað.

Rannsóknir sýna glögglega að gengisáhrifin eru langstærstur hluti kjaraskerðinganna. Verðlagshækkanir vegna gengisfalls krónunnar eru ábyrgar fyrir langstærstum hluta þeirrar kjaraskerðingar sem íslensk heimili hafa orðið fyrir á undanförnum árum.