140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ný skýrsla Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands hefur vakið verðskuldaða athygli og eru niðurstöður hennar mjög eftirtektarverðar. Þær sýna meðal annars að kjaraskerðing í kjölfar hrunsins var gífurleg þegar hér varð kaupmáttarfall upp á allt að 25%. Enn fremur sýnir skýrslan að stjórnvöldum hefur tekist það ætlunarverk sitt að milda áhrif kreppunnar sem mest á afkomu láglaunafólks og millitekjuhópa og að hlutfallslega meiri byrðar hafi lent á þeim tekjuhærri sem eðlilegt er.

Í nýliðnum 1. maí hátíðahöldum kröfðust menn meðal annars meiri samfélagsjöfnuðar, fjölgunar starfa og samstöðu meðal þjóðarinnar um að nýta vel þau tækifæri sem við höfum og halda áfram ótrauð út úr kreppunni. Undir þetta tek ég heils hugar. Skýrslan sýnir ótvírætt fram á að Ísland er að ná sér mun fyrr út úr kreppunni en aðrar þjóðir í Evrópu. Hún sýnir líka að stjórnvöld hafa beitt sér í félagslegum jöfnuði til að létta byrðarnar af þeim sem minna mega sín. Hér hefur kaupmáttur aukist hratt á þessu ári og Ísland er eitt fárra landa í Evrópu þar sem atvinnuleysið fer minnkandi. Þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að hrekja, jafnvel ekki af þeim sem halda á lofti stöðugum bölmóði og úrtölum um að ekkert hafi verið gert og eru þær raddir orðnar ansi hjáróma. (Gripið fram í: … sjálf.)

Við skulum halda áfram að byggja upp þetta land okkar og hjálpa þeim sem minnst mega sín. Við formann Framsóknarflokksins vil ég segja þetta: Digurbarkalegar yfirlýsingar hans um að tjón af þessari ríkisstjórn sé orðið meira en af hruninu (VigH: Hárrétt.) eru til þess fallnar að skjóta öllum hans málflutningi í framhaldinu til tunglsins. Svona málflutningur er ekki boðlegur á okkar tímum fyrir okkur sem (Forseti hringir.) búum á þessu jarðríki og ef hann skoðar Google Earth ætti hann að vita betur.