140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa þrír hv. þingmenn gert að umræðuefni skýrslu Þjóðmálastofnunar, Magnús Orri Schram, Skúli Helgason og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Það virðist vera einhver grundvallarmisskilningur í gangi á því hvernig á að túlka niðurstöðu skýrslu Þjóðmálastofnunar. Í skýrslunni kemur fram að rauntekjur þeirra tekjulægstu hafi lækkað um 9% í kjölfar hrunsins, millitekjuhópa um 14% og hátekjuhópa um 38%. Áhrifin á hátekjuhópana eru langmest vegna þess að fjármagnstekjur, bónusgreiðslur og annað slíkt hvarf með bönkunum. Niðurstaðan af þessu er sú að mældur jöfnuður hefur aukist gríðarlega mikið í þjóðfélaginu þannig að fögnuður yfir þessum jöfnuði er þá ótvírætt fögnuður yfir áhrifum hrunsins á hina tekjuhæstu.

Það sem er aftur á móti bagalegt hérna eru þessar tölur sem sýna að rauntekjur hinna tekjulægstu hafa lækkað mikið við hrunið, um næstum því 10%, og munar um minna fyrir fjölskyldu sem varla hafði til hnífs og skeiðar. Þess vegna er það alveg óskiljanlegt að þessir hv. þingmenn skuli fagna því alveg sérstaklega hvað ríkisstjórnin hafi gert mikið fyrir hina tekjulægstu á kostnað hinna tekjuhæstu þegar ríkisstjórnin hefur nákvæmlega ekkert að gera með það hvernig ráðstöfunartekjur þessa hóps skertust. Ég verð að segja (Forseti hringir.) að þetta er alveg ótrúlegur málflutningur, [Kliður í þingsal.] þetta eru bara ósannindi sem verið er að bera hérna á borð og argasta lýðskrum (Forseti hringir.) nema mennirnir viti bara ekkert um hvað þeir eru að tala. Það gæti vel verið. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … í fyrsta skipti sem …)