140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna um hina merku skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands. Sú skýrsla sýnir fyrst og fremst að það skiptir máli hverjir stjórna og það skiptir máli hvernig er stjórnað. Eins og við vitum leiddi hrunið yfir okkur gríðarlega lífskjaraskerðingu og skerðingu kaupmáttar, allt að 30%, og það segir okkur til um umfang þess skaða sem hlaust af hruninu og þeirri hrunstefnu sem rekin var árin og áratugina fyrir hrun, (Gripið fram í.) en við sjáum líka á þessari skýrslu árangur þess að Ísland fór sínar eigin leiðir út úr kreppunni, (Gripið fram í.) fór aðrar leiðir en til dæmis Írar með þeim árangri að botninum var náð árið 2010 og vöxtur hófst þá á ný með þeim árangri að lægri tekjuhópar urðu fyrir minni skerðingu en hæstlaunuðu hóparnir, m.a. hópurinn sem var vísað til áðan að væri með 24 millj. kr. að meðaltali í laun á mánuði fyrir hrun.

Jöfnun lífskjara var meginmarkmið þeirrar ríkisstjórnar sem tók við völdum hér eftir hrun og nú sjáum við að þær aðferðir sem beitt hefur verið og sú stjórnunarstefna sem fylgt hefur verið hefur skilað tilætluðum árangri. Það eru ekki bara tölurnar og gröfin sem sýna okkur það heldur sjáum við líka kannanir eins og væntingavísitöluna sem hefur hækkað verulega (Gripið fram í: Já, …) og núna síðast þá ánægjulegu frétt sem við gátum lesið á forsíðu blaða í morgun, að unglingar á Íslandi eru ánægðir, þeir eru meðal ánægðustu unglinga í heimi. Land er tekið að rísa og (Forseti hringir.) velferðarstjórnin virðist ætla að standa undir nafni. Það er gleðiefni. (Gripið fram í.)