140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að fjalla hér um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar en í upphafi vil ég segja, vegna umræðu um styrki Alþingis við ESB-ferlið og ólík sjónarmið í því efni — ég ætla ekki að blanda mér í deilur hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur við hæstv. forseta eða við þá sem reka Evrópuvaktina en hins vegar væri mjög ánægjulegt ef hv. þm. Álfheiður Ingadóttir mundi beita sér af sömu hörku gegn þeim hundruðum milljóna sem Evrópusambandið sjálft ver hér til áróðurs og kynningarstarfs. [Kliður í þingsal.] Það hefði einhvern tímann heyrst eitthvað í vinstri grænum ef þeir væru í annarri stöðu en nú er gagnvart þeim styrkjum sem renna óheftir til landsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Varðandi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hefur komið fram að hún ætli einkum að setja á oddinn núna fjögur mál þessa 15 þingfundadaga sem eftir eru, breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, rammaáætlun, stjórnarskrártillögur og stóra stjórnarráðsmálið sem hæstv. forsætisráðherra hefur mælt fyrir. Allar eiga þessar tillögur það sameiginlegt að það er ekki samstaða um þær innan stjórnarliðsins. Það er ekki meiri hluti fyrir þeim innan stjórnarliðsins sjálfs, jafnvel eru fyrrverandi ráðherrar sem ekki styðja málin, t.d. sjávarútvegstillögurnar. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hefur sagt að það sé búið að draga úr byggðatengingum og setja á landsbyggðarskatt.

Stjórnarráðsmálið er með sama blæ. Öll eiga þessi fjögur mál það líka sameiginlegt að hafa komið hér inn á síðustu dögunum í hluta af bílfarminum, í pappírsflóðinu frá hæstv. ríkisstjórn á síðustu dögunum fyrir lok framlagningarfrests. Það liggur algjörlega fyrir með þessi mál sem eru komin hingað inn svona seint, 15 þingdagar eftir, að staða mála er hér í þinginu er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hún kemur seint fram með mál, það er ekki samstaða um þau þegar þau koma inn og enginn veit heldur hver afdrif þeirra verða þegar þau koma hér inn. Það er alveg ljóst að (Forseti hringir.) þjóðin og fyrirtæki og heimili eru í gíslingu af þessari vanhæfu ríkisstjórn og henni verður að koma frá. (VigH: Þetta er rétt.) (Gripið fram í: Komdu bara aftur …)