140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við getum ekki einu sinni rætt hér störf þingsins án þess að það sé verið að opinbera klofninginn í ríkisstjórnarflokkunum. Ég held að hv. þm. Þráinn Bertelsson hafi sagt að þessar hamingjurannsóknir væru hrein heimska. Síðan kemur hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og eignar hvorki meira né minna en ríkisstjórninni hamingju ungmenna á Íslandi. Þetta er allt áhugavert.

Hér fer trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar mikinn í fjölmiðlum, sjálfur stjórnarformaður Tryggingastofnunar sem hefur verið helsti hugmyndafræðingur vinstri manna svo áratugum skiptir, ekki bara hér heldur líka þegar R-listinn var og hét. Hann segir okkur frá því að hér hafi allt færst til betri vegar þegar þessi ríkisstjórn komst til valda. Hv. þm. Skúli Helgason talar vísvitandi, því að auðvitað veit hann betur, gegn betri vitund og heldur því fram að það hafi verið stiglækkandi tekjuskattur fyrir fólk með hærri tekjur. Það er alrangt. Það var alltaf stighækkandi tekjuskattur og það þýðir að því hærri laun sem fólk var með, því hærri skatta greiddi það, bæði í krónum og hlutfallslega.

En þessi [Kliður í þingsal.] fræðimaður sem þeytist nú um allt talaði áður um eitt, Gini-stuðulinn. Af hverju talar hann ekki um hann núna? (Gripið fram í: Hann gerir það.) Það hefur komið í ljós að á árunum 2009 og 2010 hefur ójöfnuður aukist í launum hjóna. Í tíð norrænu velferðarríkisstjórnarinnar (Gripið fram í: … lækkað …) hefur ójöfnuður aukist samkvæmt títtnefndum Gini-stuðli. Hvaðan höfum við þetta? Við höfum þetta úr tímaritinu Vísbendingu sem byggir á bestu gögnum frá ríkisskattstjóra.

Virðulegi forseti. Ég spyr bara: Af hverju í ósköpunum tala núna fræðimaðurinn og stjórnarliðar ekki um Gini-stuðulinn? Er það alveg úti? Ekki reyna að koma og segja að hér hafi tekjuskattur lækkað eftir því sem launin voru hærri. Það eru bara hrein og klár ósannindi. (Forseti hringir.) Því hærri laun sem fólk var með, því meira greiddu menn í skatta, líka hlutfallslega. (Gripið fram í: Hvað segir …?)