140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gaman að heyra hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur koma hér upp og fara með öfugmælavísur eins og hún orðaði það sjálf, að velferðarstjórnin stæði undir nafni. Heyr á endemi. Til dæmis voru að berast af því fréttir nú í vikunni að launamisrétti væri að ná hæstu hæðum. Hver hefði trúað því á vakt hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur barist í stjórnarandstöðu síðan hún tók sæti á þingi fyrir tæpum 40 árum fyrir því að uppræta launamisrétti á milli kynjanna svo dæmi sé tekið?

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór aðeins yfir skattstefnu ríkisstjórnarinnar, að það eru mun minni skatttekjur eftir að skattarnir hækkuðu hjá þessari ríkisstjórn. Það minnir mig á það, virðulegi forseti, að nú ætla ég að fara fram á það við forseta þingsins að kallað verði eftir svari frá efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn á þskj. 985, um tapaðan virðisaukaskatt á árunum 2008, 2009, 2010 og 2011. Það er nefnilega ekki allt sem sýnist þar því að samkvæmt opinberum upplýsingum hefur virðisaukaskattur dregist svo mjög saman að ég hvet þingmenn til að fylgjast með því þegar þessu svari verður loksins dreift hér. Eins og allir vita stóð hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon fyrir því að hækka virðisaukaskatt hér á landi upp úr öllu valdi og erum við að borga hæstan virðisaukaskatt á byggðu bóli.

Einnig langar mig til þess, (Gripið fram í: Rangt.) frú forseti, að fara fram á það við þig að svar við fyrirspurn á þskj. 883 berist mjög fljótlega. Ég lagði þá fyrirspurn fram 27. febrúar. Hún er um starfsmannahald og rekstur sendiráða Íslands erlendis. Þar er pottur mölbrotinn eins og í virðisaukaskattsmálinu þannig að ég fer fram á það við þig, frú forseti, að það verði gerð gangskör í þessu og þessi svör (Forseti hringir.) berist þinginu ekki seinna en í þessari viku.