140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

þingleg meðferð mála.

[15:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Málsmeðferð í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um stjórnarráðsbreytingarnar lauk 27. apríl, tæpum mánuði eftir að málið kom fram í þinginu. Það er mat mitt sem framsögumanns og verkstjóra í þessu máli að það hafi ekki breytt niðurstöðu nefndarinnar að halda fleiri fundi eða fara frekar yfir þau gögn sem fyrir lágu.

Við upphaf málsmeðferðar var tekið skýrt fram að þetta mál mundi hafa algeran forgang í vinnu nefndarinnar á næstu dögum. Það er reyndar í samræmi við ákvæði laga nr. 115/2011 þar sem segir að tillaga sem þessi skuli borin undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu. Málið hefur því verið fyrst á dagskrá allra funda stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir að nefndin fékk það til meðferðar.

Mat mitt er að nefndin hafi staðið vel og fagmannlega að þessu verki og ég vil nota tækifærið til að þakka samnefndarmönnum mínum og nefndarritara óeigingjarna fundasetu og mikla vinnu (Forseti hringir.) við gott mál.