140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[15:57]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn sem verið hefur til umfjöllunar á þinginu fjórum sinnum, að ég tel. Hér er um að ræða rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn með það að markmiði að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra. Einmitt vegna þess að þetta er rammalöggjöf er ekki ástæða til að tilgreina sérstaklega ákveðnar starfsstéttir og verksvið þeirra.

Virðulegi forseti. Á leiðinni er önnur löggjöf á þessu sviði, verið er að endurskoða lyfjalög og lyf um lækningatæki og verður þar tekið á ýmsu því sem verið hefur til umfjöllunar í nefndinni og kemur fram í breytingartillögum. Ég legg til að við samþykkjum frumvarpið eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. á þskj. 997 og tel ekki ástæðu til þess að svo stöddu að fara í neinar breytingar á því.