140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[15:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að ganga frá þessu frumvarpi til laga á eftir. Það hefur átt sér langan aðdraganda, bæði innan þings og utan. Ég held að ég hafi fyrst talað fyrir málinu árið 2008. Vegna þess að hv. nefnd og aðrar nefndir hafa unnið vel í málinu, þær hafa fengið margar umsagnir og fjallað lengi um málið, er ég sannfærður um að málið er betra en það var þegar það kom fyrst inn í þingið.

Það er þó rétt að styðja breytingartillögu þá sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir talaði fyrir áðan, af mörgum ástæðum. Rökin gegn því að styðja þá breytingartillögu hafa verið þau að sum nágrannalönd okkar hafi farið þá leið sem núna er lagt til í tillögu meiri hlutans, en við verðum að hafa það í huga, virðulegi forseti, að þau lönd eru komin lengra hvað eftirlit varðar. (Forseti hringir.) Við skulum ekki taka neina áhættu. Ég hvet hv. þingmenn til að styðja breytingartillögu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Unnar Brár Konráðsdóttur.