140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta verður ekki í síðasta skipti sem við ræðum akkúrat þessa grein. Hún varðar það að tryggja að sjúklingar séu upplýstir um hugsanleg hagsmunatengsl heilbrigðisstarfsmanna og byggir á sambærilegu fyrirkomulagi og var samþykkt með nýju bandarísku heilbrigðislöggjöfinni þar sem verið er að tryggja að þeir sem styrkja heilbrigðisstarfsmenn beri kostnaðinn af því og skyldu til að upplýsa sjúklinga um þau tengsl. Einnig eiga heilbrigðisstarfsmenn að vera skyldugir til að tilkynna landlækni um hugsanleg tengsl við framleiðendur, dreifingaraðila og heildsala lyfja og lækningatækja.

Það hefur ítrekað komið fram í vinnu og svo nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar að menn eru sammála um að það sé brýnt að setja skýrari reglur hvað þetta varðar, að upplýsa um þessa hluti. Hér er ein hugmynd að aðferðafræðilegri leið til að gera það. Þess vegna vildi ég leggja hana hérna fram (Forseti hringir.) á ný en ég sé að meiri hlutinn fellir þessa tillögu þannig að ég hvet hæstv. velferðarráðherra (Forseti hringir.) til að fara að tilmælum velferðarnefndar og koma með tillögu sem fyrst inn í þingið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)