140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er tillaga þess efnis að tryggja bæði ákveðið samræmi á milli laga um heilbrigðisstarfsmenn og lyfjalaga hvað það varðar hversu lengi heilbrigðisstarfsmenn geta starfað. Hér er lagt til að í staðinn fyrir, eins og er í núverandi skjali, að segja að landlæknir hafi heimild til að framlengja leyfi til að starfa til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar á einkastofum fyrir heilbrigðisstarfsmenn, verði sams konar texti og er í gildandi lyfjalögum, þ.e. að landlæknir framlengi leyfi um eitt ár í senn. Við lifum lengur, við erum heilbrigðari og ég sé ekki af hverju við ættum ekki að geta leyft heilbrigðisstarfsmönnunum okkar að starfa áfram á eigin stofum ef landlæknir telur þá hafa heilsu og getu til þess.