140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að í þeirri tillögu sem þingheimur hefur þegar fellt felst ekki sú afstaða að menn séu á móti hagsmunaskráningu heilbrigðisstarfsmanna. (Gripið fram í: Nú?) Ef menn lesa nefndarálitin og tillögurnar sem fyrir liggja er það skýrt. (Gripið fram í.) Ég vek athygli á því vegna þessa 3. liðar. Það er rétt að það er misræmi við samþykkt þessa frumvarps milli ákvæða lyfjalaga og nýrra laga um heilbrigðisstarfsmenn. Lyfjafræðingar teljast jú til heilbrigðisstarfsmanna samkvæmt frumvarpinu. Því er rétt að árétta, frú forseti, að ný rammalöggjöf sem tekur til allra heilbrigðisstarfsmanna og -starfsstétta gengur hinum eldri lyfjalögum framar að þessu leyti, eins þótt um sé að ræða sérlög. Því á regla 26. gr. frumvarpsins einnig við um lyfsala og handhafa lyfsöluleyfis.

Eftir samþykkt frumvarpsins verður því eingöngu heimilt að framlengja lyfsöluleyfi þrisvar sinnum til tveggja ára í senn eftir 70 ára aldur eins og á við um alla heilbrigðisstarfsmenn.