140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, sparnaður snýr ekki bara að húsnæði. Eins og ég sagði er þetta 100 millj. kr. munur, hann byggist á ólíkum lausnum í húsnæðismálum og það þarf að skoða hann.

Að öðru leyti eru þessar tillögur ekki fram settar, eins og ég kom inn á áðan, fyrst og fremst til þess að spara heldur til þess að gera stjórnsýsluna skilvirkari.

Og nei, ég tel ekki að nýr meiri hluti eða aðrir flokkar eftir kosningar muni umbylta því kerfi að koma hér á heildstæðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti annars vegar og umhverfis- og auðlindaráðuneyti hins vegar. Þetta er bara tímanna tákn, þetta er tákn nýrra tíma, nýrrar hugsunar að breyta Stjórnarráðinu í takt við það sem verkefnin segja fyrir um. (Gripið fram í.)

Ég vil benda á þegar hv. þingmaður spyr hvort teiknað hafi verið upp nýtt Stjórnarráð og hvar einstakar stofnanir eigi að vera, að það er samkvæmt lögum á verksviði framkvæmdarvaldsins en ekki Alþingis, hv. þingmaður.