140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stefnir greinilega í mjög athyglisverða atkvæðagreiðslu hér vegna þess að nú þegar hafa tveir aðilar stjórnarliðsins lýst sig andsnúna þessum tillögum, þeir hv. þm. Árni Páll Árnason og hv. þm. Jón Bjarnason, þannig að eitthvað virðist þurfa að koma þarna á móti og benti ég á þingmenn Hreyfingarinnar áðan.

Það hefur komið fram í máli stjórnarliða sem svör við gagnrýni á að ráðuneyti stækki svo mjög við þessa fækkun ráðuneyta að það verði ekkert mál að fjölga ráðherrum innan ráðuneytanna. Þetta skal hv. þm. Álfheiður Ingadóttir viðurkenna í þessum ræðustól því að það hefur verið notað sem rök í þessu máli að það sé ekkert mál að ráðuneytin stækki svona mikið og yfirsýn ráðherranna týnist því að þá skuli bara fjölga ráðherrunum. Ég minni á að þessi ríkisstjórn hefur nú þegar fjölgað aðstoðarmönnum ráðherra upp í 23, frú forseti. (Forsrh.: Það er ekki rétt.) Þetta er sóun á almannafé (Forseti hringir.) en vinstri menn kunna að eyða peningum skattgreiðenda nú sem aldrei fyrr. (Forsrh.: Þeir eru þrír en ekki 23.)