140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir framsögu hans og kynningu á þessu nefndaráliti sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa skilað hingað inn. Þingmaðurinn fór ágætlega yfir málsmeðferðina á þessu máli og þann flýti sem málið var sett í. Það var lagt fram 30. mars síðastliðinn og er að koma nú til síðari umr. Nefndin taldi ekki ástæðu til að senda það til umsagnar eða frekari kynningar út í samfélagið, og svo er búið að taka þetta mál hér út.

Ég vil minna á að svo mikið hast var á því að taka málið til afgreiðslu hér í þinginu og út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að þær einföldu aðgerðir hjá mér um liðna helgi að ferma dóttur mína ollu því að ég gat ekki skilað inn nefndaráliti í málinu, sem er náttúrlega alveg hreint dæmalaust. Það var á dagskrá stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fimmtudag og föstudag í síðustu viku og það er komið inn í þingið. Þetta er akkúrat dæmi um hrikalega léleg vinnubrögð hjá þessari verklausu ríkisstjórn og alveg í anda þess sem hefur verið boðað hjá ríkisstjórninni og hefur sýnt það af verkum sínum að vinstri menn kunna hvorki að setja lög né skrifa þingsályktunartillögur, hvað þá heldur að fylgja þeim eftir, enda hefur ríkisstjórnin margoft verið dæmd af Hæstarétti fyrir óvandaða lagasetningu.

Mig langar til að spyrja þingmanninn hverja hann telji ástæðuna fyrir því að fulltrúi Hreyfingarinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er á nefndaráliti ríkisstjórnarflokkanna. Hvers vegna er Hreyfingin að mati þingmannsins að fylgja ríkisstjórninni eftir í þessu máli, því að Hreyfingin hefur nú verið þessi andspyrnuflokkur hér á þingi? Telur þingmaðurinn að þetta sé eitthvað tengt stjórnarskrármálinu sem er búið að boða inn í þingið á nýjan leik, að farið verði með það mál í þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) 20. október?