140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru mörg áhugaverð sjónarmið og ég hef ekki tök á að bregðast við þeim öllum í stuttu svari.

Varðandi síðustu spurninguna þá verð ég bara að vísa hv. þingmanni á að eiga orðastað við fulltrúa Hreyfingarinnar um það en ég þykist vita að þeir muni taka þátt í þessari umræðu og þeir geri þá grein fyrir skoðunum sínum í þessum efnum. Ég er ekki áhugamaður um samsæriskenningar, ekki svona í sjálfu sér, eða plottkenningar, en það hefur óneitanlega vakið athygli að upp á síðkastið hefur Hreyfingin æ oftar átt samleið með ríkisstjórnarflokkunum í einstökum málum. Það kom því ekki á óvart að það væri niðurstaðan í því tiltekna máli sem hér liggur fyrir. Það verður auðvitað framvindan að segja til um.

Fram kom í fjölmiðlum í síðustu viku, ef ég man rétt, að hreyfingarþingmenn lýstu sig jafnvel tilbúna til þess að styðja vantraust á ríkisstjórnina, sem er auðvitað mjög söguleg yfirlýsing af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna. Við vitum náttúrlega ekki hvernig þessi mál þróast, en þarna er augljóst að ákveðin hreyfing er í átt til ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Um málsmeðferðina ætla ég ekki að fara mikið út í á þessu stigi. Ég vona bara að ekki verði litið til málsmeðferðarinnar í þessu máli sem góðs fordæmis þegar kemur að afgreiðslu annarra mála hér í þinginu.