140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara hv. þingmanni eins vel og ég get verður að hafa það í huga að þegar þessi breyting er komin á dagskrá ríkisstjórnarinnar, sem virðist vera einhvern tímann í janúar, alla vega fyrir 10. janúar síðastliðinn, er settur á fót starfshópur til að fara yfir kosti og galla. Það er starfshópurinn sem ég vísaði til og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og síðan einn utanaðkomandi ráðgjafi sitja í. Þeir fara yfir þetta og senda frá sér á margan hátt ágæta greiningu um miðjan febrúar síðastliðinn. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem þar liggur fyrir en það er auðvitað eina vinnan sem liggur til grundvallar þessari breytingu og afstaða þess starfshóps er alls ekki skýr eða einhlít hvað þetta varðar. Þeir gefa líka til kynna að það geti verið rétt að efla efnahags- og viðskiptaráðuneytið eins og það er í dag. Þeir segja að ráðuneytið í óbreyttri mynd geti ekki starfað svona. Það þarf að gera breytingar, þær geta annaðhvort verið efling ráðuneytisins, væntanlega með fjölgun starfsmanna á efnahagssviðinu eða þá að ákveðnir þættir verði samræmdir eða sameinaðir fjármálaráðuneyti. Þeir fara yfir kosti og galla í þessu sambandi, og við getum sagt, sjá bæði kosti og galla á þessum breytingum.

Frekari vinna hefur ekki átt sér stað í þessu efni. Það er því rétt sem hv. þingmaður vísar til að málið hefur alls ekki hlotið fullnægjandi aðdraganda. Það er töluverður greinarmunur á aðdragandanum í þessu sambandi og það hvað varðar atvinnuvega- og auðlindamálin, því að þar geta menn þó vísað til þess að afstaða hinna fjölmörgu aðila sem að þessum málum koma var komin fram fyrir allnokkru síðan, m.a. (Forseti hringir.) andstaða hagsmunaaðila við þá breytingu sem lögð er til.