140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. minni hluta (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má jafnvel halda því fram að spurning hv. þingmanns sé nokkuð leiðandi að þessu leyti. (Gripið fram í.) Nei, auðvitað tekur það lengri tíma að sjá áhrifin af svona breytingum. Má í því sambandi vísa til þess að nú er eitt og hálft ár eða ekki einu sinni það liðið frá því að heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti voru sameinuð í eitt ráðuneyti og samgönguráðuneyti og dómsmálaráðuneyti í innanríkisráðuneyti. Enn mundi ég segja að það væri afar skammur tími liðinn og erfitt að leggja mat á áhrif þeirra breytinga því það tekur svona breytingar töluverðan tíma að komast til framkvæmda. Þegar búið er að stofna til nýrra stofnana eða sameina aðrar þá tekur það ákveðinn tíma fyrir þær að fara að virka eins og þær eiga að virka. Ég held því að það sé of snemmt í raun og veru að leggja almennilegt faglegt mat (Forseti hringir.) á það hvernig reynslan í ársbyrjun 2011 hefur verið og auðvitað er ljóst að þegar kemur að næstu kosningum verður (Forseti hringir.) reynslan af þessum breytingum ekki komin fram.