140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alls ekki svo að það séu allir óánægðir með þær tillögur sem hér liggja fyrir og alls ekki allir hagsmunaaðilar. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns og þingmanna á bls. 31–34 í þessari ágætu greiningu þar sem meðal annars kemur fram að Samorka er til að mynda mjög ánægð og telur atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti mikilvægt þó að hún sé á móti umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Hugverkaiðnaðurinn styður hvort tveggja. LÍÚ er á móti báðum þessum nýju ráðuneytum og Samtök atvinnulífsins eru bæði með og á móti atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og á móti umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Svo koma Samtök ferðaþjónustunnar sem eru mjög ánægð með atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti en hafa ekki mótað sér afstöðu til umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn sér bara myrkrið í þessum efnum og er á móti öllum breytingum í Stjórnarráðinu? Ég skil þetta ekki.