140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við enn eitt málið sem ríkisstjórnin kýs að fara fram með í ófriði. Það er ekki bara þannig að farið sé fram með mál í ófriði við stjórnarandstöðuna á þingi, að undantekinni Hreyfingunni, það er vart hægt að telja Hreyfinguna lengur til stjórnarandstöðuflokks, heldur einnig í andstöðu og ósátt við atvinnulíf í landinu og þá hagsmunaaðila sem málinu tengjast. Málið hefur verið reifað og sagt út á hvað það gengur. Hér kollvarpar ríkisstjórnin enn á ný Stjórnarráðinu sjálfu, en það er eitthvað sem þessi ríkisstjórn hefur gert, að kollvarpa því góða kerfi sem þó var hér áður en allt hrundi og sem Framsóknarflokkurinn átti þátt í að byggja upp. Við erum afar stolt af verkum okkar.

Nú eru vinstri flokkarnir við stjórnvölinn og þeir ætla að breyta því samfélagi sem við bjuggum í áður, með öllum tiltækum ráðum eins og það sé það sem gera þarf hér á landi eftir hrun. Það er ekki nóg með að bankarnir fari á hliðina og heimili landsins verði stórskuldug, það þarf líka að umbylta kerfinu og hafa alla landsmenn hálfhrædda og óttaslegna því að það veit enginn hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ekki þarf að ræða skattálögur og aðrar álögur sem ríkisstjórnin hefur lagt á landsmenn, hér er verið að snúa öllu á hvolf.

Í þessu máli hef ég gagnrýnt að hér liggur ekkert kostnaðarmat liggur fyrir, það á bara að koma seinna og ganga frá málum, þannig vinnur þessi ríkisstjórn alltaf. Þar er sagt: Æ, við bara kíkjum á það seinna, við ætlum bara að sækja okkur lagaheimild hjá Alþingi til að útfæra tillöguna síðar. Það er verið að reglugerðavæða Alþingi undir stjórn þessarar verklausu vinstri stjórnar og ekki nóg með það heldur er þetta allt saman mjög órökstutt og illa unnið.

Fram kom í nefndinni þegar þetta mál var til umræðu í síðustu viku hvað kostað hefði að gera síðustu breytingar. Ég hafði lagt fram fyrirspurn í þinginu og þá þurfti stjórnsýslan að finna svar við því hvað síðustu breytingar hjá ríkisstjórninni kostuðu nákvæmlega, þ.e. að flytja til ráðuneyti og sameina. Það kostaði kvartmilljarð, tæpar 250 millj. kr., en það er nú eitthvað sem vinstri flokkarnir hafa aldrei talið eftir sér, að sóa almannafé sem skattgreiðendur þurfa að púla fyrir.

Við vitum að nú þegar hafa farið þúsund milljónir í stjórnlagaráðsruglið hjá þessari ríkisstjórn og svo mætti lengi telja. Ég ætla nefnilega að fara yfir það á eftir hvað þessi ríkisstjórn hefur eytt af almannafé í stofnun nefnda og ráða, ég kem að því síðar í ræðu minni.

Það sem ég hef líka gagnrýnt varðandi framlagningu á þessu máli og í fyrri umbyltingum á ráðuneytunum er akkúrat kostnaðurinn. Það eru ekki einar úttektir á því. Þessi ríkisstjórn fer blindandi fram með öll sín mál og hugsar um afleiðingarnar síðar, en það er svo einkennandi fyrir þetta mál allt saman, sem ég hef líka spurt um, hvers vegna ekki er farið af stað með svona sameiningar á ráðuneytum og þá sé tekið á hinum úttútnaða starfsmannavanda sem er í þessum ráðuneytum og í undirstofnunum ráðuneytanna. Hvers vegna er ekki tækifærið notað til að hagræða líka í starfsmannamálum?

Það stendur beinlínis í þessari þingsályktunartillögu og þeim þingsályktunartillögum sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram að það sé ekki markmið sameiningar ráðuneytanna að spara þar eða að spara yfir höfuð. Það á að ná fram einhverjum ímynduðum samlegðaráhrifum með því að gera ráðuneyti svo stór að viðkomandi ráðherra hefur ekki yfirsýn yfir málaflokkana, og í gær eða í fyrradag var sagt: Æ, þá fjölgum við bara ráðherrunum og fækkum ráðuneytunum. Svona er þetta allt sett fram ómarkvisst og vanhugsað.

Ég fór yfir það í andsvari rétt áðan að ríkisstjórnin náði því í gegn að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra í 23 fyrir síðustu áramót í þessum mikla niðurskurði. Nei, nei, ráðherrarnir þurftu að hafa fleiri aðstoðarmenn og spunameistara í kringum sig. Svo er það raunverulega komið inn í umræðuna að það eigi bara að fjölga ráðherrunum af því að ráðuneytin verði líklega svolítið stór ef þessar breytingar ná fram að ganga.

Það svar sem mér barst snemma á þessu ári frá hæstv. forsætisráðherra er líka athyglisvert, frú forseti. Ég taldi að eftir sameiningar ráðuneytanna yrði þetta allt langtum skilvirkara, þ.e. öll vinna í Stjórnarráðinu yfir höfuð, og mætti alveg færa rök fyrir því að þar væri rekin ein miðlæg stöð gagnvart ráðuneytunum varðandi upplýsingastreymi til alþingismanna og þær opinberu tölur og upplýsingar sem fyrir liggja. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur um hvað ríkisstjórnin hefði sett á stofn margar nefndir frá alþingiskosningunum 2009, sundurliðað eftir ráðuneytum, hvaða nefndir þetta væru og hve margir sætu í hverri nefnd, hver væri launakostnaðurinn, sundurliðaður eftir nefndum og hvað nefndirnar hefðu marga starfsmenn. Ég taldi það alveg liggja ljóst fyrir að forsætisráðuneytið hefði þessar upplýsingar, það þyrfti bara að ýta á einn takka í tölvunni, eða þá að einhver skrifstofustjóri þar hefði heildaryfirsýn yfir allt Stjórnarráðið. Nei, nei, það var nú aldeilis ekki.

Ég fékk svar nokkrum vikum síðar þar sem sagt var að framangreind fyrirspurn sem beint væri til forsætisráðherrans, sem er verkstjóri í ríkisstjórninni, og lyti að skipun nefnda í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins á tilgreindu tímabili væri alls ekki á hennar ábyrgð. Skipun nefnda innan Stjórnarráðsins væri mál hvers ráðuneytis. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki eina einustu hugmynd um eða yfirsýn yfir til dæmis hvað er búið að eyða í nefndir og þær stjórnir sem ég spurði um, hvað þá heldur að hún viti hvað nefndirnar og stjórnirnar eru margar sem búið er að skipa í hverju ráðuneyti fyrir sig frá alþingiskosningum.

Þetta er náttúrlega alveg svakalega undarlegt, svo ekki sé meira sagt, hvernig þessum málum er háttað. Svo er bara vaðið í einhverjar sameiningar og tilgangurinn er mjög óljós. Jú, virðulegi forseti, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í ræðu sinni nokkurn veginn orðrétt áðan: Núna eru Vinstri grænir að fá þá ósk sína uppfyllta að fá það ráðuneyti sem var á kosningastefnuskránni með því að sameinuðu umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Þessu þarf maður að sitja undir. Það er eitt og eitt atriði valið úr stefnuskrá Vinstri grænna og keyrt í gegnum þingið með miklu offorsi á meðan þingmenn Vinstri grænna sitja hjá og taka ekki þátt í því mikla máli sem stendur fyrir dyrum og þeirri vá, umsókn að Evrópusambandinu, sem var þó þeirra aðalmál að berjast gegn.

Við vitum og sjáum hverjir ráða för í Vinstri grænum, það eru fyrst og fremst hópur hinna ýktu umhverfisverndarsinna sem hv. þingmaður hefur tilheyrt hingað til. En það er ágætt að þetta komi fram eftir því sem líður á árið vegna þess að fljótlega verður skipt hér um ríkisstjórn sem betur fer.

Þá ætla ég að fara yfir þær nefndir, ráð og verkefnisstjórnir og starfshópa sem núverandi ríkisstjórn undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur hefur sett á stofn frá síðustu alþingiskosningum.

Það eru hvorki meira né minna en 318 nefndir, ráð, verkefnisstjórnir eða starfshópar sem þessi ríkisstjórn hefur stofnað — 318 talsins. Það er ekki nema von að ríkisstjórnin hafi ekki stjórn á sínum eigin málum úr því að það þarf að úthýsa verkefnum úr Stjórnarráðinu með þessum hætti. Og ekki nóg með það, frú forseti, kostnaðurinn er alveg hreint geigvænlegur. Kostnaðurinn við þessar nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa er samtals 586.617 þús. kr. — 586 millj. kr. Ég vek athygli á því að inni í þeirri tölu er ekki sá kostnaður sem íslenska ríkið ber af samninganefnd vegna aðildarviðræðna við ESB.

Ég lagði þessa fyrirspurn fyrir hvert einasta ráðuneyti eftir að hafa fengið höfnun úr forsætisráðuneytinu og þau svör að hæstv. forsætisráðherra gæti ekki svarað þessu. Það kom mjög loðið svar frá utanríkisráðuneytinu, sem kemur svo sem ekki á óvart því að maðurinn sem stjórnar því ráðuneyti segir nú ekki alltaf allan sannleikann og hliðrar nokkuð til upplýsingum. Það er ekki nokkur leið að finna út úr því hvað nú þegar hefur verið eytt í samráðshóp í tengslum við samningaviðræðurnar eða samninganefndina sjálfa vegna þess að svörin eru svo loðin. Talað er um að einhverjir ákveðnir aðilar fái á bilinu 150–300 þúsund á mánuði og ekkert sundurliðað. Ekkert er gert til að sýna heildarupphæðina enda ekki nema von, allar upplýsingar um fjárhæðir sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa reynt að fá hjá utanríkisráðuneytinu hafa verið svo loðnar og faldar að það er ekki nokkur leið að henda reiður á því hvað nú þegar hefur verið reitt fram af fé ríkisins í aðlögunarferlið.

Nú ætla ég að fara aðeins yfir þessi svör því að fram kom í svari utanríkisráðherra að þær nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópar sem ráðherrann hefur skipað frá kosningum í utanríkisráðuneytinu og undirhópar þar eru 22 talsins. Ég hef farið yfir kostnaðinn, ég gat reiknað út frá því svari sem ég fékk að það væru 318 milljónir nú þegar þarna inni, mínus Evrópusambandsumsóknar- og aðlögunarferlið.

Svarið frá velferðarráðherra er á þá leið að velferðarráðherra hefur skipað 54 nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa. Ríkissjóður hefur lagt því til tæpar 73 milljónir. Það er með ólíkindum að það skuli vera svona mikill fjáraustur úr íslenska ríkiskassanum í þessar puntunefndir sem stundum er stofnað til af þessari ríkisstjórn. Þess vegna ég spurði jafnframt að því hver nefndalaunin væru fyrir þessa vinnu.

Velferðarráðuneytið hefur borgað út tæpar 73 milljónir. Ég sé að hér inni sitja þingmenn sem eiga sæti í fjárlaganefnd. Það er ágætt að þeir kynni sér þessi svör. En á það skal bent að þetta þurfti ég að handreikna út og kannski er ástæðan fyrir því að hæstv. forsætisráðherra hefur þessar tölur ekki tiltækar því að þá kæmi í ljós hversu háar upphæðirnar eru og þingmenn sæju það svart á hvítu og fólk yrði svo undrandi á því hvað stofnaðar hefðu margar nefndir og ráð. Það eru alveg ótrúlegar tölur sem ég sá þegar ég fór að reikna þetta út í dag.

Umhverfisráðherra hefur stofnað 44 ráð, verkefnisstjórnir, nefndir eða starfshópa frá kosningum. Umhverfisráðuneytið hefur borið kostnað af því upp á tæpar 72 millj. kr.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú verið öllu hófstilltari því að þar eru 25 nefndir, ráð og verkefnisstjórnir og hefur hann einungis eytt rúmum 6 millj. kr. í það frá kosningum.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur stofnað 41 nefnd, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa og hefur eytt í það rúmum 8 millj. kr.

Innanríkisráðherra hefur stofnað 47 starfshópa, nefndir og ráð og hefur eytt í það tæpum 5 millj. kr.

Iðnaðarráðherra hefur stofnað 30 nefndir, ráð og verkefnisstjórnir og það gera rúmar 16 millj. kr. í nefndalaun og þóknanir til þeirra sem í þeim sitja.

Það er afskaplega athyglisvert svarið frá efnahags- og viðskiptaráðherra. Frá kosningum hefur efnahags- og viðskiptaráðuneytið stofnað til 29 nefnda, ráða og verkefnisstjórna og kostnaðurinn þar er 133 millj. 835 þús. kr. — 133 millj. kr. sem borgaðar hafa verið til nefndarmanna í þóknun frá kosningum í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Svo er það svarið frá hæstv. fjármálaráðherra sem er nú allra athyglisverðast. Fjármálaráðuneytið hefur frá kosningum 2009 skipað 26 nefndir, ráð og verkefnisstjórnir og hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, ber ábyrgð á því að fjármálaráðuneytið hefur þurft að greiða mest í nefndaþóknanir því að ráðuneytið eyddi 369 millj. kr. í þóknanir frá kosningum. Ber þar að sjálfsögðu hæst hið vonlausa Icesave-mál sem hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, á algjörlega skuldlaust. Icesave-málið kostaði þjóðina, nefndirnar og ráðin sem stofnuð voru í kringum Icesave 370 millj. kr. beint úr ríkiskassanum. Við skulum ekki gleyma því hvernig fór með Icesave-málið, það var fellt tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefði alveg eins getað setið uppi í fjármálaráðuneyti við opinn gluggann og hent þessum fimmþúsundköllum beint út um gluggann og út á haf. Fjölmiðlar hafa reyndar ekki tekið þetta mál upp að neinu ráði. Þarna átti ekki aðeins að koma skuldbindingum yfir á herðar íslensku þjóðinni upp á fleiri hundruð milljarða heldur var fé eytt í tilgangslausa vinnu vegna þess að þjóðin hafnaði þessum samningum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stundum er ekki allur sannleikurinn sagður, það er verið að hliðra til sannleikanum í þeim svörum sem þingmenn fá frá ráðuneytunum. Þegar það kemur að nefnd E hjá fjármálaráðuneytinu, samninganefnd um Icesave, stendur hér, með leyfi forseta:

„Hvað kostnað við nefndina varðar að öðru leyti vísast í svar fjármálaráðherra á Alþingi í apríl sl. við munnlegri fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar, 546. mál á 139. löggjafarþingi …“

Þarna er verið að tefja vinnu þingmanna. Ég mátti fara sjálf og finna þetta svar og þingskjal frá þessu þingi í stað þess að upphæðin væri bara sett beint inn í svar við fyrirspurn minni. En þetta er náttúrlega það sem þessi ríkisstjórn elst upp við, á þessu byggist upplýsingagjöf Evrópusambandsins. Það er alltaf verið að vísa í önnur skjöl og svo er grunnskjalið aldrei komið inn í plöggin. Þarna er vísað fram og til baka þannig að ekki er nokkur leið að finna út úr því hver eyðslan er eða í hvað peningarnir fara, enda hefur Evrópusambandið ekki fengið endurskoðaða reikninga sína í bráðum 20 ár, en hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra er náttúrlega í uppeldi hjá Evrópusambandinu, alla vega spyrnir hann ekki við fótum gegn því.

Frú forseti. Tíminn hleypur svo hratt frá mér. Ég næ því ekki að fara yfir þessa ágætu skýrslu sem unnin var fyrir ríkisstjórnina. Það er allt gott um hana að segja en það sem mér finnst standa upp úr í skýrslunni er að nú loksins er búið að koma einhverjum böndum á hverjar auðlindir Íslands eru. Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga frá mér, hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni og Gunnari Braga Sveinssyni um að ríkisstjórnin fari með vinnu af stað sem skilgreini auðlindir Íslands, hverjar þær eru og hvernig eigi að nýta þær.

Auðlindirnar eru taldar upp í nokkrum liðum í skýrslunni: Land, loft, vatn, hafrými, jarðvegur og gróður, dýrastofnar, vatnafiskar, fiskstofnar, vatnsorka, jarðhiti, jarðrænar auðlindir og ólífrænar auðlindir á hafsbotni. Þetta er framfaraskref, það skal nú alltaf hrósað því sem vel er gert en þetta kemur líka út úr vinnu þess hóps sem samdi skýrsluna, en ekki endilega frá ríkisstjórninni að ég tel, en þó, þetta er alla vega gott innlegg inn í umræðuna.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. Ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá því að ég á alveg eftir að fara yfir það til dæmis hvernig hin nýju ráðuneyti eiga að virka og það ómarkvissa starf sem er að baki þessari þingsályktunartillögu, hvað verður um hverja ríkisstofnun fyrir sig. Sérstaklega er óheppilegt að fara í þessar aðgerðir núna vegna þess að Ísland er í aðlögunarferli að Evrópusambandinu og hér má víst finna því stað að það er á einhvern hátt gert að kröfu Evrópusambandsins að umbylta hér ráðuneytum.