140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka segja í framhaldi af þessari umræðu og þessu andsvari að það tíðkast líka á Norðurlöndunum, þar á meðal Finnlandi, að leggja fram mjög vönduð þingmál í þinginu. Þar fara málin í gegnum lagaskrifstofu þinganna sem hafa mjög mikilvægu hlutverk að gegna. Hér liggur fyrir þinginu frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis frá mér. Ef farið hefði verið í það strax og ég lagði það fram að koma á fót þeirri lagaskrifstofu værum við ekki að fjalla um svo óvandað mál eins í dag, og raunverulega öll mál sem frá ríkisstjórninni koma.

Heimildarákvæði til 23 aðstoðarmanna ráðherra er til staðar og það er bara tímaspursmál hvenær ríkisstjórnin virkjar það ákvæði, því til hvers að fá heimildarákvæði í lögum ef það er ekki nýtt? En við skulum ekki togast á um hvort þessir ágætu einstaklingar heita aðstoðarmenn ráðherra eða eitthvað annað, því Stjórnarráðið hefur tútnað út, tútnað út af spunameisturum eftir að þessi ríkisstjórn tók til starfa. Það sjá því allir í hvaða kratavæðingu landið er komið undir handleiðslu ríkisstjórnarinnar. Það er bara staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.

Ég veit að það er ekki heimildarákvæði í þessari þingsályktunartillögu til að fækka ráðuneytum og fjölga ráðherrum eins og hefur verið talað um í opinberri umræðu undanfarna daga, það kannski á eftir að koma fyrir þingið. En þetta er til merkis um hvað ríkisstjórnin mylur undir framkvæmdarvaldið, þessir einstaklingar sitja sjálfir í ríkisstjórn og fannst tímabært að þeirra tími kæmi, á meðan löggjafinn er algjörlega skilinn eftir og hvergi reynt að hjálpa til við að vanda lagasetningu eða lyfta litla fingri til að hér geti farið fram það starf sem Alþingi á að sinna samkvæmt lögum.