140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessar fyrirspurnir. Auðvitað treystir maður ekki að þær upphæðir standist sem slengt er fram í þessari þingsályktunartillögu um hugsanlegan kostnað bara í ljósi fyrri reynslu af núverandi ríkisstjórn. Ég vil minna þingmanninn á til dæmis að stjórnlagaþingskosningin átti bara að kosta 250 millj. kr. en við vitum í hvaða ferli það allt saman er komið, kærumál og ógildar kosningar og þá var farið af stað með eitthvað annað, þannig að það er komið upp í 1.000 millj. kr. Það stenst ekki nokkur einasta fjárhagsáætlun hjá þessari ríkisstjórn, enda er þetta sett mjög kæruleysislega fram. Ég spurði að því í nefndinni, og meiri hlutinn hafði ekki svör við því, hvers vegna fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins legði ekki mat á þetta eins og gerist með lagafrumvörp og annað, því að þarna er verið að fara í mjög róttækar breytingar. Engin svör, engin svör.

Þarna velta menn fyrir sér hvaða húsnæði kemur til greina og hversu stórt húsnæði þurfi fyrir sameinuð ráðuneyti. Ég minni á að ríkisstjórnin hefur meðal annars sameinað stofnanir og fært til embætti á þann hátt að ríkið situr uppi með tómt húsnæði sem það er kannski með 25 ára leigusamning á. Hvaða vit er þetta? Náttúrlega ekkert einasta vit. En þetta er alveg í takt við þessa verklausu ríkisstjórn sem kemur engu í verk nema því sem er til óþurftar og beinlínis skaðlegt fyrir íslenskt samfélag.

Það er góð spurning hvers vegna ruðst er fram á völlinn og þetta gert nú þegar aðeins er ár í kosningar. Við vitum, og það hefur komið fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem nú gengur hér í salinn, að veikja á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið vegna aðildarferlisins að ESB og þetta er einhver hluti af umsókninni og ég held að hitt sé bara sett með til að nota ferðina.