140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um kostnaðarþáttinn ætla ég ekki að fjalla frekar að sinni, en nákvæmlega þessi liður, kostnaðarþátturinn og skorturinn á upplýsingum um áætlaðan kostnað og annað, er bara til merkis um að mjög margt er óunnið í þessu máli. Það er lögð tillaga fyrir þingið um að ákveða breytingar á nöfnum ráðuneyta, en svo á að sjá til um útfærsluna og framkvæmdina síðar. Það er ekki búið að vinna áætlanagerðina til enda. Þess vegna er verið að gera þetta í vitlausri röð.

Ég ætlaði hins vegar að nefna annað atriði sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og laut að þeim kafla ræðu hennar sem snerist um nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa, en af því að við ætlum að ræða hér einmitt þetta mál í dag, stjórnarráðsmálið, er skemmtileg tilviljun að forsætisráðuneytið gleymdi einni nefnd í svari sínu til hv. þingmanns, þeirri sem lagði til þau gögn sem eru til umfjöllunar í þessu máli.