140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:24]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég velti því líka fyrir mér í þessu sambandi hvort hann átti sig á því hvernig verkaskipting er hugsuð milli atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis þegar kemur að auðlindanýtingu. Ég spyr vegna þess að ég hygg að hv. þingmaður hafi góða þekkingu á þessum málum vegna fyrri starfa og nefndasetu í þinginu. Þetta er atriði sem mér finnst fullkomlega óljóst, hef áhyggjur af að eigi gersamlega eftir að útfæra og geti haft gríðarleg áhrif á þær breytingar sem hér eru lagðar til, þ.e. hvernig þær verða í raun. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sjái einhverjar línur í þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu um það hvernig þessi verkaskipting á að vera.